143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:13]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvernig þetta á eftir að ganga í nefndinni en menn ætla að reyna að flýta þessu, geri ég ráð fyrir. Svo upphefst sami leikurinn í lok þingsins, þeir reyna að skapa sér stöðu. Þetta er náttúrlega mjög óskilvirkt starfsumhverfi. Þeir munu auðvitað klára málið fyrir þinglok. Ég veit ekki nákvæmlega tímasetninguna á því hvenær fólk getur farið að sækja um og hvenær þetta verður klárað en þeir munu kannski reyna að standa sig í því þar sem væntingarnar hafa hrunið mikið annars staðar.

Varðandi svigrúmið sem ég nefndi segir í kosningabæklingi Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Við viljum að svigrúm sem skapast við uppgjör þrotabúa bankanna verði nýtt til að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán.“

Það er ekki búið að gera upp þrotabúin, það á að fara aðra leið og mér fannst góð leið að víkka út bankaskattinn og ná þrotabúunum inn í bankaskattinn, hækka hann gríðarlega og láta þau borga fyrir þetta. Mér finnst ekki beint málefnalegt að segja að vegna þess að það hefur viðkomu í ríkissjóði verði það skyndilega opinbert fé sem á að nota út um allt o.s.frv. Þessi skattur var sérstaklega settur á til að ná inn peningum fyrir þessar aðgerðir, ef við erum algerlega heiðarleg og málefnaleg hvað það varðar. Þetta eru 100 milljarðar sem nást og eiga 80 milljarðar að fara í aðgerðina. Þá er kannski spurningin: Þegar frekara svigrúmið skapast við uppgjör þrotabúa bankanna á þá að nota það áfram til þess, eins og segir í kosningabæklingnum, að leiðrétta stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán? Það á kannski eftir að skapast meira svigrúm. Hvað á að gera við það svigrúm?