143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:15]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla rétt að vona að okkur takist að ljúka þessu máli á eðlilegum tíma í þinginu og það eru engin áform um annað, a.m.k. af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar, og ég veit að minni hlutinn hefur lýst því yfir að við munum vinna að framgangi málsins til að tryggja að það nái fram að ganga. Ég var mikið að velta fyrir mér tækninni vegna þess að menn hafa sagt að þeir geti ekki byrjað að vinna nákvæmlega uppsetninguna fyrr en þeir vita hver niðurstaðan verður og það kann að tefja þetta eitthvað, en kannski er það aukaatriði.

Varðandi sérstaka skattinn er hann lagður á öll fjármálafyrirtæki en það er ágæt spurning hvað verði gert ef það verður frekara svigrúm? Á það að fara í þessa sömu púllíu?

Mig langar að spyrja um greiðslujöfnunina. Það kemur mér mjög á óvart að farið hafi verið í aðgerð til að búa til sérstaka vísitölu til þess að lækka greiðslubyrði lána en að í frumvarpinu sé sérstakt ákvæði um að leiðréttingin skuli fara, að vísu fyrst í að greiða vanskil og ýmislegt annað en síðan í greiðslujöfnun áður (Forseti hringir.) en hún fer inn í höfuðstól lánsins þar fyrir utan. Þetta þýðir í raunveruleikanum fyrir þá aðila að greiðslubyrðin minnkar lítið sem ekki neitt, að mér sýnist.