143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir góða ræðu. Hann kom inn á kosningaloforðin sem títt eru nefnd. Hvaða nöfnum sem við nefnum loforð lofuðum við framsóknarmenn vissulega skuldaleiðréttingu með það að markmiði að fara í almenna efnahagslega aðgerð þar sem við sjáum þessa grundvallarefnahagseiningu og mikilvægi hennar fyrir hagkerfið og efnahagshringrásina í heild.

Hv. þingmaður kom inn á það að lofað hefði verið 300 milljörðum. Það kannast ég ekki við. Ég kannast hins vegar við stemningu í kringum krónueign kröfuhafa og snjóhengjuna svokölluðu og vel má vera að stjórnarandstaðan hafi verið dugleg að draga fram einhverjar væntingar í því og tengja það þeirri umræðu. Talað var um að verðtryggðar húsnæðisskuldir yrðu leiðréttar. Verið er að standa við það og verið er að standa við það sem kynnt var í Hörpu í nóvember. Það er það sem við erum að gera hér, ríkisstjórnin, og framkvæmdin verður einföld fyrir heimilin þó að um stórt og flókið verkefni sé vissulega að ræða.

Miðað við taktinn í ræðunni langar mig að spyrja hv. þingmann: Þegar talað er um ríkissjóð sem millilið í efnahagshringrás þá skiptir staða hans vissulega máli, en við verðum að skoða þær aðstæður sem við erum að vinna okkur út úr. Telur hv. þingmaður að í því samhengi sé nóg gert fyrir heimilin, það sé nóg komið?