143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég vil þó ítreka að ég get tekið undir með honum að við erum sammála um að aðalatriðið er ekki að vera að togast á um tölurnar í þessu samhengi. Hins vegar kemur fram í skýrslunni frá því í nóvember að tímabilið sem um ræðir var 2007–2010. Gert var ráð fyrir að verðtryggð húsnæðislán yrðu færð niður um fjárhæð sem samsvaraði verðbótum umfram verðbólgu á tímabilinu þá. Við útreikning kom hins vegar í ljós að forsendubresturinn hafði eingöngu áhrif á verðtryggð lán á árunum 2008–2009 og því liggur staða verðtryggðra lána yfir það tímabil til grundvallar leiðréttingunni, þ.e. að verðbólgan á árunum 2007–2010 var undir viðmiðum sem dregur það vissulega fram að verið er að leiðrétta þann hugsaða skilgreinda forsendubrest. Getur hv. þingmaður ekki tekið undir það?