143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Fram hefur komið að búið er að trappa ansi mikið niður þá glanskynningu sem var í Hörpu á sínum tíma um væntanlegar skuldaleiðréttingar og það viðmið sem átti að nota varðandi forsendubrestinn. Nú á að finna út með reglugerð að því er virðist, þegar allar umsóknir eru komnar í hús og hver þátttaka verður, svokallaða leiðréttingarvísitölu og nota reglugerð í því sambandi. Það er auðvitað gert til að reyna að halda utan um það að upphæðin verði ekki meiri en 80 milljarðar þegar menn vita hve margir koma til með að nýta sér þessi úrræði.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, ef hann vill veita mér athygli, hvort hann telji að það sé eðlilegt að færa svo mikið vald í hendur hæstv. fjármálaráðherra að skilgreina þær forsendur miðað við þá tugmilljarða ráðstöfun úr ríkissjóði, að hann með reglugerð hafi þá heimild til að setja þau viðmið hvernig þeim fjármunum verður útdeilt. Og kannski í framhaldi af því: Telur hann að einhverjir hópar sérstaklega séu algerlega skildir eftir hvað þessa aðgerð varðar? Fram hefur komið að á síðasta kjörtímabili voru lagðir af hálfu opinberra aðila yfir 70 milljarðar í aðgerðir, og átti eftir að reyna að bæta um betur, (Forseti hringir.) eru einhverjir hópar algerlega settir hjá?