143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:57]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir ræðuna. Það er þrennt sem ég vildi spyrja hann um. Í fyrsta lagi tíundaði hv. þingmaður margt sem þyrfti að ræða betur í efnahags- og viðskiptanefnd og ég tek undir það. En telur hv. þingmaður einnig að kannski þyrfti að ræða lánsveðshópinn sérstaklega? Ákvörðun lánsfjárvaxtabóta kemur til að mynda til frádráttar þeim úrbótum sem hópurinn á að verða fyrir. Það ætti kannski að ræða sérstaklega og ég spyr hvort hv. þingmaður taki ekki undir það.

Ég vil í öðru lagi spyrja út í 15. maí, hvort hv. þingmaður telur að eitthvað liggi að baki þeirri dagsetningu og hvort hann geti úttalað sig nánar um það.

Í þriðja lagi mundi ég vilja spyrja hvort ekki þyrfti að skoða hve margir eru undir þegar kemur að innborgun á greiðslujöfnunarhluta láns. Þar þurftu menn að velja sig út frá því úrræði, margir gerðu það ekki og gera sér kannski ekki grein fyrir að þeir eru komnir undir það úrræði og fá því mögulega ekki það sem þeir töldu sig fá vegna þess að þeir eru að fara að borga inn á greiðslujöfnunarreikning sem þeir vissu ekki að þeir ættu. Ég velti fyrir mér hvort ekki þurfi að taka þetta fyrir sérstaklega í umræðum í nefndinni, hvort hv. þingmaður geti tekið undir það með mér.