143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:58]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi lánsveðshópinn held ég að það sé algerlega óhjákvæmilegt að skoða stöðu hans í sambandi við þær lausnir sem hér eru. Mörg sárustu tilfellin varðandi skuldir, meðal annars ungs fólks, eru þegar fólk hefur ekki getað leitað eftir úrræðum eða farið í gjaldþrot og losað sig út úr vandanum vegna þess að lánsveð hangir hjá foreldrunum sem þýðir þau keðjuverkandi áhrif að setja þá í þrot. Glímt hafði verið við að finna lausnir og gekk ekkert allt of vel. Þó kom ein tillaga um það og samningar við lífeyrissjóðina en því hefur verið kastað út af borðinu. Þá vill maður fá svar um hvað kemur í staðinn og hv. nefnd verður að vinna úr því.

Varðandi vaxtabæturnar þá má deila um það; þetta var að vísu tvenns konar, almennar vaxtabætur og sérstakar vaxtabætur, og það eru þær sem koma til frádráttar. Það er eins með það, mér finnst að menn eigi að meta það. Ég er ekki að ætla mönnum eitthvað varðandi 15. maí, með sveitarstjórnarkosningarnar. En þegar menn fara fram með bravúr eins og nú séu einhver ósköp að gerast verða menn að horfast í augu við að sex mánuðir eru þar til eitthvað fer að gerast; það er bara staðreynd. En því fyrr því betra.

Ég gagnrýni margt í kringum þá útfærslu sem hér er verið að fara en ég fagna þeirri viðleitni sem felst í því að reyna að létta skuldum af heimilunum og skapa þannig umhverfi í samfélaginu að við skuldsetjum okkur ekki svona mikið, að menn geti lifað af launum sínum án þess að þurfa að leggja allt undir til að eignast húsnæði. Það er allt saman óleyst í sambandi við þetta.

Mér sýnist það vera um 40–42 þúsund heimili sem eru með greiðslujöfnun, það kemur fram í skýrslunni, annars vegar hjá Íbúðalánasjóði en hins vegar hjá bönkunum. Fólk á eftir að finna fyrir því að greiðslujöfnunin verður greidd niður fyrst og það mun ekki lækka greiðslubyrðina.