143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Frumvarpið er hluti af aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um höfuðstólslækkun húsnæðislána. Það sem slær mig einna fyrst við lestur frumvarpsins eru óvissuþættir málsins, fyrir utan þá staðreynd að skuldaleiðréttingarnar eru mun minni í sniðum en boðað hafði verið og miðað við hvernig ég sjálf að minnsta kosti skildi þær fyrir kosningar. Raunar lækkuðu boðaðar skuldaleiðréttingartillögur allverulega um leið og hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra kynntu tillögur sínar í nóvember sl. Nú hafa þær enn lækkað en talað var um að allt að 240–300 milljarða sem áttu að fást úr svokölluðum „hrægammasjóðum“. Leiðréttingarnar eru nú orðnar að um það bil 80 milljörðum sem koma eiga úr ríkissjóði. Það er svolítið annað upplegg en fyrir kosningar, en gott og vel.

Sem fyrr segir hljóta allir sem kynna sér málið að hnjóta um alla óvissuþætti þess. Illmögulegt ef ekki ómögulegt er fyrir fólk sem var með verðtryggð fasteignaveðlán á árunum 2008–2009 að átta sig á því hvort það eigi rétt á leiðréttingu og þá hversu mikilli. Rétt eins og hv. þm. Helgi Hjörvar hefur verið óþreytandi að benda á síðustu daga þá vantar reiknivélina sem talað hafði verið um að yrði sett upp svo hver og einn gæti séð hversu mikið hann eða hún gæti gert ráð fyrir að fá í leiðréttingu. Það mun hins vegar ekki liggja fyrir fyrr en umsóknarfrestur um skuldaleiðréttinguna rennur út eða þann 1. september

Að sama skapi mun heildarumfang aðgerðarinnar ekki liggja fyrir fyrr en að loknu umsóknarferlinu þegar vitað er hversu margir ætla að láta á hana reyna og sækja um skuldaleiðréttingu. Um þetta segir í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta, að „þátttaka í aðgerðinni og dreifing þegar fenginna afskrifta verður ekki þekkt nægjanlega nákvæmlega fyrr en að umsóknartímabili liðnu.“ Það er sem sagt ekki víst að 80 milljarða áætlunin standist eða hvort bæta þurfi við upphæðina. Hæstv. fjármálaráðherra verði hins vegar veitt svigrúm til að stemma það af í reglugerð.

Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa sagt að þetta þurfi hv. efnahags- og viðskiptanefnd að skoða sérstaklega og svara því hvort hreinlega sé hægt að gera svona í lögum. Ég veit það ekki en mér finnst þetta vera það stórt atriði að menn hljóti að þurfa að skoða það nánar, enda ekkert litlir peningar sem liggja þarna á bak við, 80 milljarðar. Við þetta má svo raunar bæta að nokkrum undrum sætir hve lítt aðgerðirnar koma að gagni þeim hópum sem veikast standa, tekjulágum, þeim sem þegar hafa nýtt sér önnur úrræði í skuldavanda sínum og fólki á leigumarkaði sem svo sannarlega hefur orðið fyrir búsifjum af völdum efnahagshrunsins. Þeir hópar fá litla eða enga bót í sínum málum í þessu frumvarpi. Aðgerðirnar virðast sniðnar að betur stæðum heimilum og þeim sem eru með hæstu tekjurnar eða efri millitekjur.

Það liggur hins vegar fyrir að fyrri aðgerðir til aðstoðar skuldsettum heimilum með verðtryggð húsnæðislán koma til frádráttar þessari aðgerð þannig að þeir sem nú þegar hafa fengið sérstaka skuldaaðlögun eða aðlögun í samræmi við 110%-leiðina fá ekki frekari aðstoð við að ná tökum á greiðsluvanda sínum með þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána tekur ekki til lögaðila þrátt fyrir að til lánsins hafi verið stofnað með beinum eða óbeinum hætti í þágu einstaklinga. Um þetta er fjallað í 3. gr. frumvarpsins. Með öðrum orðum þýðir það að skuldaleiðréttingin nær ekki til leigjenda, þar á meðal þeirra sem leigja hjá húsnæðissamvinnufélögum.

Í umræðum um frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar sem hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir fyrir helgi, eða sl. fimmtudag, komu fram þær áhyggjur þingmanna að það frumvarp gagnaðist illa þeim sem hafa lágar ráðstöfunartekjur. Þá hefur einnig verið bent á að engin félagsleg greining liggi fyrir um það hvaða hópar það eru helst sem ekki leggi fyrir séreignarlífeyrissparnað en að vel megi ímynda sér að það sé einmitt tekjulágt fólk. Í þeirri umræðu var bent á að hvort sem stjórnvöld skapa hvata til að leggja fyrir með því að bjóða þeim sem það gera skattafslátt á móti gagnast það ekki þeim sem ekki ná endum saman og hafa því ekki efni á að leggja fyrir í sparnað. Sami hópur, þ.e. lágtekjufólk, er einnig ólíklegur til að hafa vegna lágra launa sinna fest kaup á húsnæði. Það fólk er því á leigumarkaði. Frumvarp hæstv. fjármálaráðherra um séreignarlífeyrissparnað gagnast þeim hópi ekki neitt. Nú kemur þetta frumvarp fram og vegna þess að það nær ekki til lögaðila svo sem húsnæðissamvinnufélaga eins og áður sagði mun það ekki verða til að lækka greiðslubyrði þeirra aðila og þar með leigu þeirra sem leigja hjá húsnæðissamvinnufélögunum. Dæmi um húsnæðissamvinnufélag af þessum toga er Brynja, hússjóður Öryrkjabandalags Íslands, en sú er hér stendur hefur raunar haft tengsl við það húsnæðissamvinnufélag í gegnum stjórnarsetu.

Brynja er sjálfseignarstofnun með það hlutverk að eiga og reka leiguíbúðir fyrir öryrkja. Sjóðurinn var stofnaður árið 1965 og hefur til þessa dags verið fjármagnaður með leigutekjum. Frá árinu 1987 hefur hann einnig fengið viðbótarframlag frá Öryrkjabandalagi Íslands af ágóðahlut þess af Íslenskri getspá, lottóinu. Í dag á sjóðurinn rúmlega 750 íbúðir í útleigu og eins og gefur að skilja skiptir hann gríðarmiklu máli fyrir stöðu öryrkja á húsnæðis- eða leigumarkaði.

Til að setja hlutina í samhengi vil ég benda hv. þingmönnum á að meðalbætur örorkulífeyrisþega með framfærsluuppbót en fær ekki heimilisuppbót eru 188 þús. kr. fyrir skatt. Með heimilisuppbót, sem reyndar einungis tæp 30% örorkulífeyrisþegar fá, hækkar talan í tæpar 216 þús. kr. Það eru meðaltekjurnar sem þessir leigjendur hafa úr að spila.

Í stefnuyfirlýsingu Brynju hússjóðs segir, með leyfi forseta:

„Brynja hússjóður leitast við að vera fyrirmynd í rekstri á félagslegu húsnæði fyrir öryrkja.

Brynja hússjóður er virkur í umræðu, ákvarðanatöku og stefnumótun er lýtur að félagslegu húsnæði.“

Á öðrum stað í stefnunni kemur fram að rekstur sjóðsins skuli vera sjálfbær og að tekið skuli tillit til þess við ákvörðun leiguverðs. Leitast skal við að tryggja að yfirbygging sjóðsins sé lítil, búsetuöryggi íbúa sem mest, húsnæði aðgengilegt, fjölbreytilegt og staðsetningar við hæfi. Allt eru þetta þættir sem ekki er tryggt að séu til staðar á almennum leigumarkaði. Sérstaklega skiptir aðgengi leigjendur Brynju hússjóðs, sem eru fatlað fólk og öryrkjar, miklu máli. En þó að eiginfjárhlutfall Brynju hússjóðs sé gott, en stefna sjóðsins er sú að það verði ekki lægra en 60% á hverjum tíma, fer ekki hjá því að slíkur sjóði beri líkt og önnur húsnæðissamvinnufélög verðtryggð lán. Þau lán hafa vitaskuld tekið breytingum líkt og lán einstaklinga. Hærri greiðslubyrði skilar sér því eðli málsins samkvæmt í hærri leigu til viðskiptavina sjóðsins, sem eru með ráðstöfunartekjur upp á 188 þús. kr. á mánuði.

Með því að undanskilja húsnæðissamvinnufélög er því verið að svipta leigjendur slíkra félaga mögulegum ávinningi af skuldaleiðréttingum. Engu að síður hefur þetta fólk orðið fyrir margs konar afleiðingum efnahagshrunsins líkt og allir aðrir sem byggja þetta samfélag. Erfitt er að sjá hvers vegna orðræða ríkisstjórnarflokkanna um forsendubrest sem brýnt sé að leiðrétta eigi ekki að taka til þessa hóps. Örorkulífeyrisþegar greiða skatt af lífeyri sínum, skatt sem líkt og allir aðrir skattar renna í samneyslu okkar. Fyrirætlun stjórnvalda um að greiða verðtryggð húsnæðislán niður með almannafé felur í sér tilfærslu fjármuna frá þeim tekjulægri, eins og örorkulífeyrisþegunum sem ég tók dæmi af áðan, til þeirra tekjuhærri og frá þeim eignaminni til þeirra eignameiri. Lauslegar áætlanir, enda margt á huldu um hver áhrif frumvarpsins og skuldaleiðréttinganna verða þegar allir hafa nýtt umsóknarfrest sinn, gera hins vegar ráð fyrir að félag á borð við Brynju, hússjóð Öryrkjabandalagsins, gæti lækkað leigu sína um allt að 5% ef lögin tækju til þess. Það munar um slíkt fyrir einn tekjulægsta hópinn á íslenskum húsnæðismarkaði.

Hér erum við aftur komin að kjarna málsins. Það er sú staðreynd að tillögur ríkisstjórnarinnar, hvort heldur sem er það frumvarp sem við ræðum hér í dag eða frumvarpið um séreignarsparnaðinn sem við ræddum fyrir helgi, taka ekki mið af vanda og veruleika þeirra tekjulægstu. Að segja láglaunafólki á leigumarkaði að það geti bara lagt til hliðar viðbótarsparnað til íbúðarkaupa bendir til blindu á efnahagslegan veruleika þessa hóps.

Í þessu frumvarpi leggja höfundarnir meira að segja sérstaka lykkju á leið sína til að útiloka húsnæðissamvinnufélög, félög sem oft leigja íbúðir á félagslegum grunni en ekki með gróðasjónarmið í huga og gagnast einkum þeim efnaminnstu. Það eru kannski ekki óvænt viðbrögð frá öðrum aðildarflokki þessarar ríkisstjórnar en koma nokkuð á óvart frá hinum sem vildi a.m.k. til skamms tíma halda á lofti merki samvinnuhugsjónarinnar.

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að ég tel þetta lagafrumvarp ekki líklegt til að bæta raunverulega hag þeirra sem erfiðast eiga með að láta enda ná saman og eiga í hvað mestum greiðsluerfiðleikum um hver mánaðamót. Þvert á móti felur það í sér tilfærslu fjármuna frá þeim tekjulægri til hinna sem betur eru settir.