143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:27]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur aftur fyrir mjög góð svör. Hún talar um hóp sem verður að einhverju leyti út undan í þessari aðgerð en mig langar að upplýsa hana um að í velferðarráðuneytinu er unnið að framtíðarskipan húsnæðismála. Þar er unnið að ýmsum úrræðum og komnar fram tillögur t.d. um félagsleg úrræði í húsnæðismálum og leiðir á almennum leigumarkaði, þ.e. hvernig við getum lækkað leiguverðið, því að það er auðvitað mjög mikilvægt að horft sé til þess hóps. Mikilvægt er að við horfum á heildarmyndina í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna því að þar er verið að vinna með hina ýmsu hópa þó að það nái kannski ekki alveg til hinna lægst launuðu í þessum efnum.