143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:35]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Frumvarpið er annað af tveimur skuldaleiðréttingarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar, en hitt ræddum við hér í þinginu fyrir helgina, en það var frumvarp til laga um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar. Því frumvarpi hefur verið vísað til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins.

Það er einstaklega ánægjulegt að skuldaleiðréttingarfrumvörpin séu komin til umræðu í þinginu. Mikilvægt er að allir leggist á eitt og vinni á málefnalegan hátt við að koma skuldaleiðréttingarfrumvörpunum í gegnum þinglega meðferð þannig að þau verði sem fyrst að lögum. Íslensk heimili þurfa á því að halda að fá sem fyrst þær úrbætur sem frumvörpin kveða á um. Því ber að fagna að frumvarpið sé komið fram, meðal annars vegna þess að undanfarin fimm ár hafa framsóknarmenn barist fyrir bættum hag heimilanna með það að markmiði að leiðrétta þann forsendubrest sem varð hér sökum efnahagshrunsins á haustmánuðum 2008. Samkvæmt skuldaleiðréttingarfrumvarpinu sem rætt er um nú verða verðtryggð húsnæðislán færð niður um fjárhæð sem samsvarar verðbótum umfram verðbólgu.

Þegar skuldaleiðréttingarfrumvörpin voru kynnt í lok nóvember átti að miða við árið 2007 og 2010. Við útreikning kom hins vegar í ljós að forsendubresturinn hafði eingöngu áhrif á lán á árunum 2008 og 2009 og því liggur staða verðtryggðra lána yfir það tímabil til grundvallar leiðréttingunni. Fram kemur í frumvarpinu að með því að miða leiðréttingu við áramót muni framkvæmdin verða einfaldari en ella. Umsækjendur munu fyrr sjá leiðréttingarnar verða að veruleika.

Umfang skuldaleiðréttinganna eru um 150 milljarðar sem ná til, ef við horfum á báðar aðgerðirnar saman, um 100.000 heimila. Vissulega hefði verið mjög jákvætt ef hægt hefði verið að hafa þak aðgerðanna eitthvað hærra en það er nú til að koma á móts við þann hóp sem var einna mest fyrir forsendubrestinum, þ.e. þá sem keyptu í lok ársins 2004 til ársins 2009. Í þessu samhengi er þó mikilvægt að horfa á heildarmyndina, en skuldaleiðréttingarfrumvörpin, sem rædd eru í þinginu þessa dagana, eru eingöngu einn liður af tíu úr aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna.

Eins og fram hefur komið á mikil vinna sér stað innan velferðarráðuneytisins í verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Þar er meðal annars unnið að húsnæðislánakerfi til framtíðar og að lyklafrumvarpinu. Einnig er unnið með verðtryggingu og þar er bæði horft til meirihlutaálits og sérálits. Þau eru bæði höfð til hliðsjónar. Einnig mun verkefnisstjórn skila af sér hugmyndum um hvernig komið verði á öruggum leigumarkaði hér á landi þannig að þeir sem hér búa geti haft raunhæft val um séreign eða leiguhúsnæði. Jafnframt er horft til þess hvernig mögulegt verði að lækka leigukostnað og tillögur stjórnarinnar hljóma upp á allt að 20% lækkun í þeim efnum. Auk þess er unnið að félagslegu húsnæðiskerfi með það að markmiði að allir geti haft öruggt þak yfir höfuðið. Ekki er eingöngu verið að finna upp hjólið að nýju, heldur er jafnframt stuðst við góðar hugmyndir og það sem gefið hefur góða raun hér á landi á undanförnum árum.

Verkefnisstjórnin mun skila af sér tillögum til félags- og húsnæðismálaráðherra í lok þessa mánaðar. Mikill tími hefur farið í vinnu verkefnisstjórnarinnar og mikið samráð hefur átt sér stað við ýmis samtök og stofnanir til að vinna í sátt og fá sem bestar niðurstöður úr vinnu hópsins. Auk þess sem að framan er nefnt má nefna að í desember síðastliðnum lagði innanríkisráðherra fram frumvarp um að fresta nauðungarsölum fram í september 2014. Nær frestunin til íbúðarhúsnæðis með verðtryggðar húsnæðisskuldir. Frumvarpið var samþykkt.

Í janúar síðastliðnum samþykktu þingmenn frumvarp félags- og húsnæðismálaráðherra um fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta. Nú þegar hefur verið opnað fyrir umsóknir á vef embættis umboðsmanns skuldara og á annað hundrað umsóknir hafa borist frá því í byrjun febrúar. Umsóknarferlið varðandi fjárhagsaðstoð vegna gjaldþrotaskipta er skilvirkt og áætlað er að ferlið taki um tvær vikur frá því öll gögn berast vegna málsins.

Í lok mars á þessu ári lagði félags- og húsnæðismálaráðherra fram tvö frumvörp og þau eru heimilunum í hag. Annað þeirra varðar húsaleigubætur til þeirra sem misst hafa eignir sínar á uppboði og leigja þær nú til búsetu. Sá hópur hefur hingað til ekki átt rétt á húsaleigubótum og hefur það verið miður. Því ber að fagna að bæta skuli réttindi þeirra. Hitt frumvarpið varðar embætti umboðsmanns skuldara og heimild hans til að sekta fjármálastofnanir ef fjármálastofnanirnar neita eða draga að afhenda embætti umboðsmanns skuldara þær upplýsingar sem á þarf að halda til þess að klára vinnu við umsóknir þeirra sem þangað leita. Samkvæmt frumvarpinu getur sektargreiðsla numið allt frá 10.000 kr. að einni milljón á dag, líkt og dagsektir samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en þar er horft til ýmissa þátta, til dæmis fjölda starfsmanna og margt fleira.

Þannig að ég snúi mér nú aftur að umræðunni um skuldaleiðréttingarfrumvarpið sem nú er rætt þá verður að nefna nokkra þætti sem eru einstaklega ánægjulegir. Það er meðal annars ánægjulegt að framkvæmdin verður einföld fyrir almenning þó um stórt og flókið verkefni sé að ræða. Einstaklingar sækja um leiðréttingarnar rafrænt á vef ríkisskattstjóra og verður umsóknarferlið frá 15. maí til 1. september 2014. Ástæða þess að miðað er við 15. maí er sú að þá á vorþingi að vera lokið eða svona um það bil og skuldamálin að öllum líkindum að fullu afgreidd í gegnum þingið. Eftir að umsóknarferlið mun fara í gang mun ferlið ganga hratt fyrir sig og í langflestum tilvikum ætti að vera hægt að sjá áhrif aðgerðarinnar strax að loknu umsóknarferli í haust, en umsóknarferlinu lýkur þann 1. september 2014. Þegar umsóknarferlinu verður lokið mun niðurfelling lána birtast í heild sinni í heimabanka og á greiðsluseðli þar sem fasteignaláni verður skipt niður í frumlán og leiðréttingarlán. Lántaki greiðir eingöngu af frumláni og leiðréttingarlán verður greitt af ríkissjóði með bankaskattinum næstu árin.

Ánægjulegt er að bankaskattur sé tekinn af þrotabúum gömlu bankanna, en það verður að horfast í augu við að fjármálastofnanir áttu ákveðinn þátt í því sem hér gerðist á haustmánuðum 2008 og olli heimilum landsins miklu tjóni. Jákvætt er að sjá hluta þess fjármagns sem fór frá heimilum landsins til bankanna skilað til baka í formi bankaskatts og lægri lána.

Virðulegur forseti. Skuldaleiðréttingarfrumvörp ríkisstjórnarinnar ná til fjölda heimila sem hafa mismunandi tekjur. Þar er meðal annars hægt að nefna að um fjórðungur af heildarupphæð höfuðstólsleiðréttingarinnar fer til heimila með árstekjur undir 4 milljónum, það eru til dæmis hjón með 160.000 kr. í laun á mánuði hvort, ef jafnt er skipt. Tæplega helmingur leiðréttingarinnar fer til heimila með árstekjur undir 6 milljónum, það eru til dæmis hjón með um 250.000 kr. í laun á mánuði, ef jafnt er skipt. Um 60% leiðréttingarinnar fara til heimila með árstekjur undir 8 milljónum, það eru hjón sem bæði eru með um 330.000 kr. í laun á mánuði, til dæmis tveir kennarar í heimili. Þeir sem skulda um 30 milljónir eða meira eru hins vegar rétt um rúmlega 20% af heildinni, en tölulegar upplýsingar sýna fram á að flest heimili skulda á bilinu 10–30 millj. kr. Þar með er mestur þungi aðgerðarinnar hjá þeim hópi, eða um 65% upphæðarinnar, sem sett er til skuldaleiðréttingar heimilanna. Hlutfall fjárhæðar og niðurfærslu árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri og meðalfjárhæð niðurfærslu hækkar eftir því sem börn á heimili eru fleiri. En oft er það nú þannig, þótt það sé ekkert algilt, að eftir því sem fleiri börn eru í heimili er húsnæðið stærra.

Herra forseti. Það er óhætt að halda því fram að ríkisstjórnin standi við orð sín. Verið er að framkvæma leiðréttinguna sem boðuð var í nóvember, auk þess er mikil vinna í velferðarráðuneytinu eins og fram hefur komið. Ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins er að vinna fyrir heimilin í landinu.