143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég skil mætavel sjónarmið hennar en get ekki annað en velt fyrir mér í ljósi þess að hér var talað um fólk sem keypti íbúð 2004–2008, keypti íbúð 2008–2009 eða keypti íbúð 1995–1999. Margt fólk hér á landi hefur bara ekki keypt neitt vegna þess að það hefur ekki haft efni á neinu. Það fólk fær ekkert með þessum aðgerðum eftir því sem ég fæ best séð og eftir því sem menn segja hér.

En það er nefnilega með þennan blessaða forsendubrest, sem ég hef ekki enn fundið skilvirka og heilsteypta skilgreiningu á frekar en margir aðrir hv. þingmenn, að það er annað skuldavandamál sem Ísland á við að etja, og það er skuldavandi ríkisins. Ríkissjóður skuldar núna 1.500 milljarða kr. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmanni þyki skipta meira máli þegar allt kemur til alls skuldir heimilanna eða skuldir þjóðarinnar allrar.