143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[21:55]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Það var loforð okkar framsóknarmanna að leiðrétta þann forsendubrest sem íslensk heimili urðu fyrir vegna verðtryggðra húsnæðislána. Það töluðum við um í kosningabaráttunni.

Ég bind miklar vonir við Hagstofufrumvarpið sem við unnum með hér í þinginu síðasta sumar. Í gegnum það verður hægt að keyra talnagrunn sem gefur okkur vísbendingar um hvernig til hefur tekist með þeim aðgerðum sem við ræðum hér. Ef ég skildi það frumvarp rétt ættum við að geta séð það þar ef vísbendingar eru um að einhverjir hópar hafi orðið út undan. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það mun koma út.