143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði rétt áðan að aðgerðin næði til sumra. Í íslenskri orðabók eru „sumir“ nokkrir. Þessi aðgerð nær til um 70.000 íslenskra heimila og ef við tökum aðgerðina með sem kynnt var á föstudaginn eru það um 100.000 heimili af 125.000 í landinu. Hvernig geta það verið sumir, hv. þingmaður?

Hvað vill Björt framtíð gera fyrir íslensk heimili? Hún vill ekki lækka skuldir þeirra með þessum aðgerðum sem eru almennar, réttlátar, sanngjarnar, koma mörgum til góða, helst þeim sem minnst eiga, sem hafa meðaltekjur og rétt undir þeim. Hvað vill Björt framtíð gera fyrir íslensk heimili, hv. þingmaður?