143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:13]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir aðra spurningu. Hann spyr hvað mér finnist rangt við þetta. Einfalt svar er að mér finnst einfaldlega rangt að taka þessa upphæð í fyrsta lagi úr skattkerfinu, en það var aldrei rætt um það fyrst, og dreifa út gæðum með þessum hætti þegar við vitum að það eru aðrir en bara þeir sem tóku verðtryggð lán, hv. þingmaður, sem hafa það skítt og erfitt. Mér finnst rangt að taka þessa upphæð úr ríkiskassanum og deila henni út til þeirra sem hafa væntanlega tekið lán eða eru með verðtryggð lán bara á þessu tímabili. Það er ekkert talað um hvenær þeir tóku það. Þeir sem t.d. keyptu sér íbúð 1995 eða 1999, eru væntanlega með mikinn gróða þarna á milli. Þetta er einfaldlega óréttlát dreifing gæða, það er það sem við erum ósammála um hérna.

Og jú, mér finnst milljón á mánuði há laun. Ég veit ekki hvort ég sé með einhver önnur viðmið. (Gripið fram í.) Ha? (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki hvað þú sagðir. (Gripið fram í.)Já, eins og ég segi, hér kemur fram 12 milljónir eða meira á ári, það eru væntanlega líka þeir sem eru með 2 milljónir. Þannig að við deilum ekki sömu skoðun á því.