143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:30]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Mér leikur forvitni á að vita hvernig hv. þingmaður vill þá lýsa hruninu og áhrifum þess á heimilin ef ekki má nota orðið forsendubrest, hvernig við mundum geta náð utan um það til að geta skilið það sem kom fyrir þau heimili eða þau sem hafa verðtryggð lán. Mér leikur forvitni á að vita það til að átta mig á hvaða orð við getum notað. Ekki það að ég sé hlynntur orðinu „forsendubrestur“ vegna þess að það er fyrst og fremst óskilgreint í frumvarpinu og datt út frá vinnu sérfræðingahópsins og inn í frumvarpið sem nú liggur fyrir. Eitthvað þurfum við samt að nota til að ná utan um þetta vegna þess að alla vega náðu ákveðin stjórnmálaöfl fylgi út á það að eitthvað hefði nú komið þarna fyrir.

Annað sem ég mundi vilja velta upp spurningu til hv. þingmanns er varðandi skuldavanda ríkisins sem er sá stóri vandi sem vissulega blasir við þjóðinni. Hann er vandi okkar allra og er kannski helsti forsendubresturinn sem er almennur. En mér leikur forvitni á að vita hvert sjónarmið hv. þingmanns er gagnvart velferðarkerfinu og hvort veita megi fjármuni, sem mögulega er hægt að afla með bankaskattinum, í velferðarkerfið frekar en einvörðungu að skuldum ríkissjóðs. Velferðarkerfið þarf sannarlega á eflingu að halda líka. Það er þetta tvennt, takk.