143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:34]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mér leikur forvitni á fleiru og er að leita eftir hjálp frá hv. þingmanni og fleirum hér inni þegar til meiri umræðu kemur. Talað er um í frumvarpinu að 5.000 heimili eigi ekki rétt á þeirri leiðréttingu sem talað er um í frumvarpinu, en á næstu síðum er fjallað um áhrifin á fjárhæð niðurfærslu og skilgreint eftir tekjuhópum, aldursbili og ýmsu öðru. Ég velti fyrir mér hvort í þeirri greiningu hafi verið tekið tillit til frádráttar á leiðréttingu, í greiningunni, eða hvort aðeins hafi verið dregin frá þessi 5.000 heimili eða hvort búið sé að reikna inn þá sem fá frádrátt á leiðréttinguna. Ég er svolítið forvitinn um þetta. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur sett sig inn í það, en kannski getum við velt þessu upp svona í spjalli.