143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér eiginlega til þess að útskýra frammíkall. Ég sá að hv. þingmaður var mjög undrandi þegar ég kallaði fram í þegar hann afneitaði því að hafa nokkru sinni talið að hægt væri að skapa eitthvert svigrúm þegar hann var í sinni fyrstu kosningabaráttu. Ég kvaðst hafa verið annarrar skoðunar. Og ég var annarrar skoðunar, en svo var um miklu fleiri.

Það er rétt að rifja upp fyrir hv. þingmanni að fyrri ríkisstjórn beitti margvíslegum meðulum til þess að gera kleift að skapa hið fræga svigrúm í síðari samningum við kröfuhafa. Sú ríkisstjórn festi gjaldeyri þrotabúanna hér á landi með því að afnema undanþágur sem þau höfðu gagnvart gjaldeyrislögum.

Það má rifja upp að hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem þá voru á dögum studdu það ekki. Þeir treystu sér ekki til þess heldur sátu hjá. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi allur atkvæði gegn því. Það var hins vegar þannig að menn höfðu aðrar skoðanir á því hvað ætti að gera við svigrúmið en kannski sá flokkur sem á upptökin að því frumvarpi sem við ræðum hér. Ég rifja það líka upp að þáverandi fjármálaráðherra og núverandi varaformaður Samfylkingarinnar sagði það algjörlega skýrt að hún vildi nýta svigrúmið til þess að lækka skuldir ríkisins. Ég var þeirrar skoðunar og sagði það mörgum sinnum að nota ætti part af þessu svigrúmi til þess að bæta þrautir þeirra sem verst voru settir og þeirra sem raunverulega sættu forsendubresti.

Ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið sem liggur hér fyrir feli í sér að afhenda fólki peninga sem ekki sætti forsendubresti. Ég get tekið sem dæmi þá sem keyptu sér íbúð þegar íbúðaverð var lægst 1998 og 1999. Þeir urðu ekki fyrir neinum forsendubresti ef maður lítur yfir tímabilið þaðan og áratug fram í tímann, svo það liggi algjörlega ljóst fyrir.

Ég vildi skýra þessi ummæli mín því ég sá undrunarsvipinn á hv. þingmanni og ég vil ekki að hann gangi til (Forseti hringir.) sængur hissa á mér.