143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Reykv. n. hjartanlega fyrir útskýringuna. En þetta er kannski smámisskilningur vegna þess að ég held að við séum ekki að tala um sama hlutinn.

Ég talaði um svigrúmið í kannski í þrengri skilningi en hv. þingmaður. Svigrúmið sem ég man eftir í kosningabaráttunni var þannig að skyndilega var fólk að tala um fleiri tugi milljarða eða jafnvel hundruð milljarða sem áttu að vera til staðar til þess að nota á einhvern hátt. Svo voru menn að rökræða hvernig ætti að nýta þá eins og þetta væru bara ókeypis peningar sem við gætum notað í það sem okkur þætti best. Þannig skildi ég umræðuna á sínum tíma og eins og gefur að skilja gerir þetta mig talsvert ringlaðan þótt ég telji mig nú hafa fundið út úr því við hvað hafi verið átt. Það að nota þetta svigrúm, hversu raunverulegt sem það gat svo sem verið á þeim tíma, til að rétta á einhvern almennan hátt hlut þeirra sem verst fóru í hruninu; ég gæti hugsanlega tekið undir það í einhverjum skilningi. En þá mundi ég byrja til dæmis á öryrkjum, ég mundi byrja á þeim frekar en fólki sem hefur þó fjárhagslega burði til þess að eiga eitthvað í lífinu, fólk eins og mig ef út í það er farið.

En ég þakka hv. þingmanni fyrir útskýringuna.