143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:43]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni prýðisræðu og rúmlega það.

Ég áttaði mig reyndar ekki alveg á því hvort það væri mikill ágreiningur um það frumvarp sem við ræðum hér, þ.e. um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Hv. þingmaður talaði um aðra hópa sem hefðu vissulega orðið fyrir forsendubresti. Ég deili því alveg með honum. Um það er ekki deilt. Námsmenn eru títtnefndir. Við höfum önnur úrræði þar sem snúa að vöxtum og greiðsludreifingu. Hann nefndi öryrkja. Ég deili þeirri skoðun. Ég held að allir hv. þingmenn deili þeirri skoðun. Þar er aldrei nóg að gert. Við höfum önnur úrræði og verðum að leita til þeirra. Leigjendur, vissulega, það er annar hluti aðgerða sem getur nýst leigjendum og ungu fólki sem er á leigumarkaði og svo til þess að nýta sér skattleysi séreignarsparnaðar eða séreignarlífeyrissparnaðar o.s.frv.

Það er auðvitað hugmyndafræði út af fyrir sig að réttlæta það að ríkissjóður skili minni afgangi til lengri tíma en ella og styrkja og setja í forgang hag heimilanna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann geti séð, ef hann stæði í þeim sporum að fara í slíka forgangsröðun, hvort hann mundi taka þá fjármögnun sem farið er í í þessum aðgerðum til að borga niður skuldir ríkissjóðs (Forseti hringir.) eða styrkja hag heimilanna.