143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er pínulítið ringlaður yfir spurningunni ef ekki er deilt um að öryrkjar hafi farið verst út úr hruninu og forsendubresturinn hafi verið hvað alvarlegastur hjá þeim, ef forsendubrest skal kalla. Það er reyndar raunverulegur forsendubrestur vegna þess að forsendurnar sem öryrkjar áttu að geta gefið sér voru þær að bætur mundu hækka í samræmi við verðlag, sem þær gerðu ekki, á meðan vér lántakendur, og ég ítreka það enn og aftur — ég er lántakandi, ég er með verðtryggt lán, ég á íbúð og þekki þetta vandamál mjög vel — áttum að geta gefið okkur með því að lesa samninginn sem við skrifuðum undir þegar við tókum lánið að forsendan væri verðbólgan. Það er forsendan sem brást hjá öryrkjum. Ef við værum að forgangsraða þannig að þetta ætti helst að koma þeim til bóta sem urðu verst úti í kreppunni hefðum við byrjað á öryrkjum. Þá hefðum við gert það. En það sem ég held að hafi gerst er að í kosningabaráttunni voru heimilin einfaldlega miklu, miklu fleiri. Ég held ekki að þetta snúist mikið um sanngirni eða réttlæti heldur, þegar allt kemur til alls, um að meiri hlutinn var háværastur og meiri hlutinn kaus samkvæmt hagsmunum sínum og skildi eftir ákveðna hópa í samfélaginu, þar á meðal öryrkja, nemendur og leigjendur. Það þykir mér miður.

Gott og vel ef það er lýðræðislegur vilji, en sanngirni er það ekki. Þetta er að því gefnu að maður tæki undir það sem ég held að ég skilji spurningu hv. þingmanns sem, að réttlæta að ríkissjóður skili minni afgangi en ella í þágu heimilanna. Ríkissjóður skilar ekki neinum afgangi. Mér finnst ekki að við getum af ábyrgð talað um að ríkissjóður geti skilað minni afgangi eftir það sem á undan er gengið fyrr en við sjáum það gerast.