143. löggjafarþing — 91. fundur,  7. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[22:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Spurningin sneri að því ef hann stæði frammi fyrir þeim forgangi annars vegar að nýta fjármuni til að styrkja þessa grunnefnahagsstoð, heimilin — og áttum okkur á því að aðgerðirnar munu ná til um 70.000 heimila — eða hins vegar, eins og hagfræðikenningar réttlæta, að ríkissjóður sé skuldsettur á sama tíma, þ.e. miðað við þær efnahagsaðstæður sem við erum að koma okkur út úr. Ef hann stæði frammi fyrir þeirri forgangsröðun.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann út í 6. gr., hvort hann sjái miðað við frumvarpið þetta upplýsingatækniverkefni endurspeglast í greininni, hvort það væri það sem hann var að vísa til. Hann minntist á 6. gr. hér áðan varðandi öflun (Forseti hringir.) upplýsinga, birtist það honum þannig að það hafi tekist vel?