143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Húsnæðismál hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu og málefni leigjenda til að mynda verið mikið í umræðunni. Það er ekki skrýtið, það eru fleiri og fleiri einstaklingar og fjölskyldur sem líta á það sem vænlegan valkost að búa fremur í leiguhúsnæði en að festa alla peningana sína í fasteignum og fleiri og fleiri átta sig á því að þetta geti verið raunverulegur valkostur, og í rauninni er það kannski það sem stjórnmálaflokkar, félagasamtök o.fl. ættu að skoða sem raunverulegan valkost.

Sveitarfélögin, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, eiga mjög mikið af íbúðum. Flestar þeirra eru bundnar inni í svokölluðum félagslegum leigukerfum en samtals er þetta um 3 þús. íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, þar um bil.

Til að komast inn í íbúð í þessu félagslega kerfi þurfa menn að uppfylla tiltekna félagslega stöðu hvað varðar tekjur og annað en það er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum. Ég hef því velt því fyrir mér hvernig sveitarfélögin gætu byrjað að opna kerfið á annan hátt en hefur verið gert hingað til. Ein hugmyndin sem gæti virkað væri að stofnað yrði nokkurs konar byggðasamlag á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar á landinu um félagslegt leiguhúsnæði þar sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu legðu íbúðir sínar inn og það giltu sömu reglur, það væru samræmdir biðlistar og jafnvel samræmt leigugjald á öllum stöðunum.

Þetta gæti gert það að verkum að sveitarfélögin yrðu stór og öflugur þátttakandi í leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu og gætu tryggt að þetta búsetuform og þessi valkostur yrðu raunverulegur valkostur (Forseti hringir.) fyrir íbúa, ekki aðeins hér heldur alls staðar á landinu.