143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Þann 31. mars sl. staðfesti Samkeppniseftirlitið kaup eða viðskipti með fyrirtækið Kaupás og að því loknu er fyrirtækið Kaupás í 100% eigu Festi hf. Ef einhver kannast ekki við fyrirtækið Festi hf. hét það áður Bekey, ef það segir einhverjum eitthvað. Festi hf. er eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í rekstri verslunarfyrirtækja eins og segir, með leyfi forseta, á heimasíðu Kaupáss. Festi hf. er í eigu SF V slhf. og eru hluthafar um 30 talsins. SÍA II er stærsti einstaki hluthafi félagsins með um 27% hlut. Fyrir þá sem ekki vita er SÍA II náskyldur ættingi SÍA I sem á stóran hlut í Högum. Einkafjárfestar eru með 26% eignarhlut, lífeyrissjóðir með 32%, tryggingafélög og sjóðir með 15% eign í félaginu.

Að þessu loknu skapaðist það ástand sem ég lýsti hér fyrr í vetur. Nú eigum við Matvöruverslun Íslands hf. Það vill þannig til að ég var á fundi hjá SA núna á fimmtudaginn þar sem ágæt ung kona lýsti því hversu mikið ríkið seildist til áhrifa á því sem hún kallaði heilsumarkaðnum. Hún setti upp kökurit sem sýndi að ríkið réði 68% af því sem er kallað heilsumarkaðurinn, þ.e. Landspítalinn og önnur sjúkrahús sem ríkið rekur. En það hefði verið hægt að taka ríkið út úr þessu kökuriti og setja Haga/Kaupás í staðinn og þá hefðum við verið komin með ástandið á smásölumarkaðnum á Íslandi. Nú efast ég ekki um að það góða starfsfólk sem er í Samkeppniseftirlitinu hafi byggt úrskurð sinn á gildandi lögum, ég efast ekki um það. Það bendir hins vegar til þess í mínum huga að breyta þurfi gildandi lögum. (Gripið fram í: Rétt.) Það þarf að breyta samkeppnislögum þannig að svona hringamyndun verði ekki til á Íslandi.