143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Undanfarna daga höfum við í þinginu fengið yfir 3 þús. tölvuskeyti frá nemendum, kennurum og öðrum sem hafa stutt kjarabaráttu háskólakennara gegnum síðuna 9april.is. Ég hef átt mörg samtöl við fólk eftir þessi tölvuskeyti og lýsi ég þungum áhyggjum mínum ef kennarar háskóla fara í verkfall. Hugsanlegt verkfall er boðað seint, 25. apríl til 10. maí, á prófatíma. Félag kennara í Háskólanum á Akureyri boðaði til verkfalls í gær. Félag kennara í Háskóla Íslands tekur ákvörðun 9. apríl, á morgun.

Ég hef í fyrsta lagi miklar áhyggjur af tæplega 20 þús. háskólanemendum. Flestir nemendur ættu að öllu jöfnu að þreyta próf og fleiri en eitt á boðuðum verkfallstíma. Undirbúningur annarinnar og ársins hefur snúið að þessum prófatíma og dagsetningum. Til að fá námslán þurfa nemendur að mæta í próf og standast lokapróf. Margir þeirra hafa fengið sumarvinnu eftir skóla og treysta á að próftaflan sem send var í febrúar standist. Aðrir eru að fara að útskrifast með öllu sem því fylgir og það er ekki síst mikilvægt fyrir þá sem hafa fengið inni í erlenda skólum að próftaflan haldist óbreytt.

Ég get nefnt fleiri hópa, erlenda nema og þá sem stunda skiptinám á Íslandi. Þeir þurfa landvistarleyfi sem sum hver renna út strax eftir próf og eiga bókaða flugmiða.

Í öðru lagi finnst mér óboðlegt að háskólakennarar með langan og erfiðan námsferil að baki, jafnvel þekkingu erlendis frá, masters- og doktorspróf, séu með laun langt undir meðallaunum fyrir að kenna, miðla þekkingu sinni og mennta annað fólk. Laun og kjör eru einn mælikvarði á það hvernig við metum starfsstéttir.

Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra heyri orð mín því að þessir nemendur eru framtíð Íslands. Starfsstétt sem mótar framtíðina ætti ekki að þurfa að boða verkfall á nokkurra ára fresti. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) til að fresta ekki vandanum heldur leysa hann.