143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Margir hv. þingmenn, og ekki bara þingmenn heldur líka fólk úti í þjóðfélaginu, ræða þá umræðuhefð sem einkennir stjórnmál og þjóðmál á Íslandi. Ég held að við getum alveg verið sammála um að hún sé ekki til fyrirmyndar. Hana má bæta.

Gott dæmi um það er núna sú umræða sem fer fram um það hvort við eigum að sækja um aðild að ríkjabandalaginu Evrópusambandinu eða hvort við eigum að halda okkar stöðu og sækja fram, m.a. í fríverslunarbandalagi EFTA. Hún er öll mjög fyrirsjáanleg og einkennist af skotgrafahernaði. Ég vonaðist til, og geri enn, að allar þær skýrsluúttektir sem liggja fyrir yrðu í það minnsta til þess að við gætum sameinast um nokkra einfalda hluti. Í fyrsta lagi er öllum ljóst eftir að hafa skoðað og lesið þessar skýrslur að það mun enginn hjálpa okkur nema við sjálf. Það mun enginn sækja fram fyrir hönd Íslands eða bæta lífskjör á Íslandi nema Íslendingar sjálfir. Ef við ætlum að gera það er það í rauninni bara með mjög einföldum hætti, sama hvar við erum í pólitík, þótt við séum ósammála, og það er sú leið sem þær þjóðir fara sem við berum okkur saman við. Það er með aga, ráðdeild og frelsi. Sama hvaða skoðun við höfum í utanríkismálum og einhverju öðru ættum við að sameinast um það. Við þurfum frelsi í viðskiptum til að ná góðum lífskjörum. Hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir benti á hvernig hér var komið fyrir okkur fyrir mörg hundruð árum og þá var sem betur fer það frelsi í viðskiptum að menn gátu keypt sér það sem gerir lífið skemmtilegra.

Við þurfum ráðdeild í opinberum fjármálum og það á bæði við um stjórn og stjórnarandstöðu. Við þurfum aga, ekki bara þegar kemur að opinberum fjármunum, heldur líka hlutum eins og á vinnumarkaði. (Forseti hringir.) Agi, ráðdeild og frelsi er leiðin til bættra lífskjara.