143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni bréf sem okkur þingmönnum barst frá 23 háskólakennurum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta.

„Fjármál Landbúnaðarháskóla Íslands hafa verið í kreppu allt frá stofnun hans árið 2005. Það er löngu tímabært að stokka verkefni hans upp til að tryggja faglega framtíð þeirra á öflugri vettvangi en verið hefur. Að þessu hafa rektor og menntamálaráðherra unnið ötullega undanfarið í góðu samráði við yfirstjórn Háskóla Íslands. Við teljum að landbúnaðarvísindi og tengdar greinar eigi ekki að vera í einhverju sérhólfi. Þeim sæmir best að vera við hlið annarra mikilvægra fræðigreina til að tryggja nýsköpun og árangur við lausn þeirra verkefna sem bíða okkar í náinni framtíð. Þetta er líka sú leið sem okkar helstu samstarfsstofnanir í nágrannalöndunum hafa fetað á síðustu árum.“

Síðar segir í þessu bréfi:

„Við mótmælum því að stefnumörkun um framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands sé rekin með hræðsluáróðri, fordómum, þröngsýni og almennri vanþekkingu á faglegum forsendum háskólarekstrar. Við viljum að stefnumörkun þar til bærra stjórnvalda um framtíð háskólastigsins sé fylgt og skorum á rektor og menntamálaráðherra að hvika hvergi frá settum markmiðum með sameiningu Landbúnaðarháskólans og Háskóla Íslands um metnaðarfulla uppbyggingu á starfsstöðvum skólans.“

Virðulegi forseti. Ég lýsi vonbrigðum mínum með vaskan menntamálaráðherra fyrir að hafa látið undan frekjupólitík eins og þeirri að þingmenn í kjördæmum Norðvesturkjördæmis, Bændasamtökin og sveitarstjórnir stoppi það þarfaverk sem er í gangi þarna. Ég vil minna á að landbúnaðarháskólinn er líka í Suðurkjördæmi og enn fremur í Reykjavíkurkjördæmi norður sem er mitt kjördæmi.