143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa nokkrir ræðumenn á undan mér fjallað um virðingu þingsins og störf okkar. Ég ætla að halda þeirri umræðu áfram.

Það styttist í sveitarstjórnarkosningar. Það er mikilvægt fyrir samfélagið allt að þar veljist öflugt og duglegt fólk til starfa. Því er það áhyggjuefni hvað það heyrist víða að erfitt sé að fá fólk til að bjóða sig fram í þessi mikilvægu störf. Ég held að sú orðræða sem hér fer oft fram og þær hörðu deilur sem birtast oft úr þessum sal spili stórt hlutverk.

Þá má einnig nefna að fjöldi góðra mála bíður eftir að komast til umræðu í nefndum þingsins, koma til þeirrar góðu meðferðar sem flest mál fá þar. Einnig bíður fjöldi mála eftir að koma til 2. umr. þar sem verður hægt að kynna fyrir þinginu afrakstur nefndarstarfsins. Stór hópur fólks úti í samfélaginu bíður eftir niðurstöðunum úr þessu nefndarstarfi, bíður eftir að sjá þá framtíðarsýn sem þingið ætlar að skapa.

Í gegnum tíðina virðist stjórnarandstaðan hafa þurft að taka dagskrá þingsins í gíslingu eða í það minnsta hægja á henni til að tryggja að hún hafi einhver áhrif. Við þurfum að finna aðrar leiðir til að tryggja aðkomu stjórnarminnihlutans, t.d. með aukinni samvinnu og auknu trausti.

Ég tel að við öll sem hér störfum höfum í hendi okkar að bæta trú fólksins á stjórnmálum, auka virðingu fyrir hinum góðu störfum sem eru unnin innan veggja Alþingis og hraða þeim framförum sem nást með afgreiðslu þess fjölda mála sem eru afgreidd að mestu samhljóða í nefndum þingsins og áfram úr þingsalnum. Þá verðum við, hvort sem við erum í stjórn eða minni hluta, að sýna að við séum störfum okkar vaxin og nýta þá fáu þingdaga sem eftir eru til að vinna góðum málum framgang með heiðarlegu samtali og finna okkur nýjan vettvang fyrir pólitísku leikina.