143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[14:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég tel það hafa verið vel til fundið að kalla til sérstakrar umræðu í þinginu þegar þessi skýrsla Alþjóðamálastofnunar kom fram og fagna því að geta fengið tækifæri til að ræða stuttlega um meginniðurstöður skýrslunnar. Hér leggur málshefjandi upp með megináherslu á ábatann af fastgengisfyrirkomulagi og upptöku evrunnar eftir inngöngu í Evrópusambandið.

Um það vil ég fyrst segja að ákvörðunin um að ganga inn í Evrópusambandið er miklu stærri en sú að gera breytingar í peningamálum. Það er mjög stór pólitísk ákvörðun, hún snertir fjölmörg svið mannlífsins á Íslandi og hún verður ekki tekin án þess að höfð sé hliðsjón af þeirri þróun sem á sér stað í Evrópusambandinu í dag, hvað við þyrftum að gefa eftir af ákvörðunum sem við tökum á okkar eigin forsendum í dag og fara að deila ákvarðanatöku um stór og mikilvæg mál og hver væri niðurstaðan fyrir sjálfstjórn okkar um okkar eigin málefni.

Allir þekkja umræðuna um sjávarútveginn. Í sjálfu sér er ekki hægt að færa fyrir því nokkur einustu gild rök að það sé einhver ávinningur í því fyrir okkur Íslendinga að taka upp sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, að við deilum ákvarðanatöku um mál sem við í sjálfu sér ráðum að fullu leyti í dag með þeim sem eiga enga aðild að fiskveiðilögsögunni. Þetta er augljóst.

Hv. þingmaður nefnir landbúnaðarmálin. Í sjálfu sér gætum við gert grundvallarbreytingar í landbúnaðarmálum. Þótt hv. þingmaður nefni þetta sem stórt tækifæri til að gera breytingar þar byrjar það á því að við séum sammála um að vilja gera breytingarnar og svo veltum við fyrir okkur hvort við getum ekki gert þær breytingar sjálf. Við þurfum ekki að ganga í Evrópusambandið til að gera breytingu á landbúnaðarstefnunni.

Ég gæti haldið áfram að tala um önnur svið eins og til dæmis það sem blasir við öllum í dag og kannski hefur komist nýr skriður á eftir að evrukrísan gerði vart við sig, að Evrópusambandið er smám saman að verða meira og meira sambandsríki. Þannig sagði til dæmis Mario Draghi, forseti Evrópubankans, í síðustu viku að hans stærsti ótti í augnablikinu væri sá að Evrópusambandið væri að festast í stöðnunartímabili þar sem verðbólga er lág og það er enginn vöxtur. Þeir eru búnir að lækka vextina og svæðið tekur ekki við sér. Sá frægi fjárfestir Soros sagði fyrir nokkrum dögum að það væri raunveruleg hætta á því að Evrópusvæðið, Evrópusambandið og evrusvæðið, væri að sigla inn í krísu sem hefði mörg einkenni þess sem hefur gerst í Japan undanfarna áratugi þar sem örvunaraðgerðir duga ekki til til þess að kveikja líf í hagkerfinu. Mörg Evrópusambandsríki eru nú þegar farin að finna hressilega fyrir því, eins og til dæmis Svíar sem hafa séð töluverða styrkingu á sínum gjaldmiðli en á enga eftirspurn frá sínum mikilvægustu markaðssvæðum í Evrópusambandinu. Þess vegna hlýtur það að vera hluti af þeirri umræðu sem við erum að taka hér hvort heppilegt sé eins og sakir standa að tengjast svæði sem í augnablikinu er í algjörri stöðnun og raunverulega hætta á því að sé einfaldlega að sigla inn í verðhjöðnun, að það geti orðið neikvæð verðbólga á þessum stöðum.

Það er raunveruleg hætta sem meira að segja forseti Seðlabanka Evrópu er að tala um og færði í orð fyrir örfáum dögum. Hvaða afleiðingar mundi það hafa fyrir okkur? Við yrðum af tækifærum til vaxtar, það er óumdeilanlegt. Við mundum þurfa að laga okkur að því sem væri að gerast á myntsvæðinu. Veltum því fyrir okkur hvort það sé þessi virði að fá stöðugleikann ef stöðugleikinn verður svo mikill að það sem við fáum á endanum er hreinlega stöðnun? Það er enginn að sækjast eftir því.

Í augnablikinu erum við með ágætishagvöxt á Íslandi, við erum með lága verðbólgu, við erum með minna atvinnuleysi en er í dag í hverju einasta landi Evrópusambandsins og það er ágætlega bjart fram undan. Við höfum að sjálfsögðu okkar vandamál við að glíma eins og þau sem tengjast gjaldeyrishöftunum og við þurfum að halda áfram að lækka skuldir ríkissjóðs, en það sama verður sagt um meira eða minna öll ríki Evrópusambandsins. Það eru alltaf einhver viðfangsefni uppi á borðum.

Aðalatriðið er að ákvörðun um að ganga í jafn stórt pólitískt samstarf og fylgir fullri aðild að Evrópusambandinu er ekki ákvörðun sem menn geta tekið á grundvelli myntarinnar einnar og sér.

Jafnvel þótt við værum eingöngu að velta því fyrir okkur að taka upp hina sameiginlegu mynt mundum við þurfa að gæta okkar alveg sérstaklega vegna krísunnar sem á sér stað þar í dag, vegna þess að það hefur ekki tryggt þann nauðsynlega evrópska samruna sem þarf að eiga sér stað til þess að reka sameiginlega mynt, það á einfaldlega enn eftir að gera það. Það hefur aldrei neitt myntsamstarf í veraldarsögunni gengið upp án þess að síðan fylgdi pólitískur samruni. Og það er það sem á eftir að klára í Evrópusambandinu. Viljum við Íslendingar ganga svo langt, viljum við færa ákvörðunarvaldið um fleiri og fleiri málefni á fleiri og fleiri sviðum til Brussel?

Þetta eru spurningar sem menn verða að spyrja sig þegar þeir velta fyrir sér möguleikunum á því að ganga inn í Evrópusambandið. Það er óeðlilegt og beinlínis rangt í sjálfu sér að stilla þessu þannig upp að ákvörðunin um að ganga í Evrópusambandið snúist einungis um myntina. En jafnvel þótt spurningin snerist meira eða minna bara um myntina er á sama tíma full ástæða til að passa sig alveg sérstaklega.

Komið var inn á það sem gerðist 2008 þegar hér urðu miklir efnahagserfiðleikar. Ég hef rakið hvernig atvinnuleysið á Íslandi er lægra en gildir í öllum Evrópusambandsríkjum. Sérstaklega er slæmt að sjá hversu hátt atvinnuleysið er hjá ungu fólki í Evrópusambandinu eins og allir þekkja, á Spáni, í Grikklandi og víðar, upp undir 50%. Hvernig hefði þetta allt litið út ef við hefðum ætlað okkur að leggja áherslu á að festa gengið? Það hefði í sjálfu sér verið hægt, við hefðum svo sem getað tekið upp fastgengisstefnu hérna í hruninu og sagt: Ja, við ætlum ekki að leyfa krónunni að gefa eftir. Við ætlum að skuldsetja ríkissjóð til að halda krónunni stöðugri.

Það hefði kallað á mörg þúsund uppsagnir í opinbera geiranum til viðbótar við þau 20 þúsund störf sem töpuðust í einkageiranum. Þess vegna þurftu Lettar til dæmis að slá mjög verulega niður laun í opinbera geiranum á sama tíma og atvinnuleysið fór yfir og í kringum 25%. Það fór upp í 25% úr því að vera innan við 5% á skömmum tíma. Það er það sem ég á við þegar ég tala um að menn verði að velja á milli þess að taka kreppur út í gegnum vinnumarkaðinn eða í gegnum gengið. Menn geta ekki bæði étið kökuna og átt hana, menn verða að velja tvennt af þrennu í þessu. Ef menn vilja frjálsa fjármagnsflutninga sem ég trúi að við viljum öll hér á Íslandi, jafnvel þótt þeim fylgdu einhverjar hömlur, það er ekkert óeðlilegt við það. Þó að einhverjar hömlur fylgi frjálsum fjármagnsflutningum hafa menn aðeins um tvennt að velja, fast gengi eða peningalegt sjálfstæði.

Ég tel að jafnvel þótt margir ókostir fylgi íslensku krónunni séu kostirnir óumdeilanlega töluvert miklir. Í nýlegri skýrslu Seðlabankans sem tók út peningamálin og velti upp valkostum í gjaldmiðilsmálum til framtíðar er sérstakur kafli tileinkaður spurningunni um það hvers vegna okkur hefur gengið illa að halda verðstöðugleika í landinu. Það eru taldar upp fjölmargar ástæður. Við erum nú þegar farin að takast á við sumar þeirra. Það hefur vantað meira samspil á milli ríkisfjármála og þess sem er að gerast í framkvæmd peningastefnunnar. Það hefur ekki verið nægilegt samspil á milli ríkisgeirans og sveitarfélaga í landinu þegar kemur að því að draga úr eða auka umsvif. Menn hafa ofmetið ýmsa þætti í hagkerfinu frá einum tíma til annars, aðlögunarhæfni hagkerfisins o.s.frv. Þetta er allt rakið ágætlega en það var ekki sérstakur liður sem sagði: Þetta er allt íslensku krónunni að kenna þegar upp er staðið.

Við vitum að við erum sek um ýmis hagstjórnarmistök í fortíðinni sem hafa kallað á verðbólgu og óstöðugleika í landinu. Það á bæði við um vinnumarkaðinn og opinbera geirann. Umræðan ætti að mínu áliti að snúast mun meira um þá þætti, snúast um það sem við erum að leggja til í nýju frumvarpi um opinber fjármála og síðan heilt yfir með þessa skýrslu sem er komin þá — nú er tími minn búinn og ég vil einfaldlega segja að mér finnst ekki margt nýtt í skýrslunni. (Forseti hringir.) Mér finnst dregnar ályktanir oft af dálítið takmörkuðum upplýsingum og fátt kemur á óvart.