143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

skýrsla Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður við ESB.

[15:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu og málshefjanda fyrir að fara af stað með hana í kjölfar skýrslunnar sem var gefin út í gær. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirgripsmikla ræðu um sýn hans á málefnum landsins í tengslum við sýn hans á Evrópusambandið og samanburð þar á milli.

Það er svolítið skrýtið að standa í þessum sporum. Við erum einhvern veginn á byrjunarreit, því að það kemur fram í skýrslunni að viðræðunum var í raun hætt á síðasta kjörtímabili. Það leiðir hugann að því hvers vegna fyrrverandi ríkisstjórn fór ekki af stað með það á ný í kosningabaráttunni að knýja á um að álitið sem var skilað með þingsályktunartillögunni og umsókninni sem send var til Brussel yrði ekki tekið upp og fært í það horf að Íslendingar mundu gefa frá sér sjávarútveg sinn, eins og kemur fram í skýrslunni. Það er það sem við stöndum frammi fyrir fyrst og síðast og það er tómt mál að tala um málefni Evrópusambandsins og Íslands nema ræða þá staðreynd, þann hluta málsins sem snýr að sjávarútveginum.

Það kemur fram í skýrslunni sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út fyrr á þessu ári að siglt hafi í strand, og raunar sigldu viðræðurnar í strand strax árið 2011, vegna þess að þeir aðilar sem héldu á málefnum sjávarútvegsins fyrir Íslands hönd treystu sér ekki til að stíga það skref að ganga lengra en fólst í því nefndaráliti sem ég vísaði í, að gefa frá sér sjávarútveginn, og þar með treysti Evrópusambandið sér ekki til að opna kaflann, svokallaða rýniskýrslu, vegna þess að Íslendingar voru ekki tilbúnir til að skrifa undir það að aðlaga sig regluverki Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum. Þetta liggur alveg klárt fyrir og er staðfest í skýrslunni sem kom út í gær þar sem talað er um fimm atriði sem lúta að því að hægt var mjög á viðræðum á síðasta ári og í raun tók fyrrverandi ríkisstjórn þá ákvörðun að setja viðræðurnar á frost í ársbyrjun 2013. Það er ágætistími síðan og svo er látið líta svo út fyrir að þetta sé vandamál núverandi ríkisstjórnar. Hvernig er hægt að snúa umræðunni svona á hvolf?

Það var fyrrverandi ríkisstjórn sem tók ákvörðun um að hægja mjög á viðræðunum og var búin að sigla viðræðunum í strand og svo hrópa þessir sömu flokkar á þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður sem þýðir á íslensku að verið er að hrópa á að við gefum frá okkur sjávarútveginn. Svona er málið einfalt. Þetta snýr að þessu, lýtur að þessu. Þess vegna skil ég ekki hvernig hægt er að rugla umræðuna fram og til baka og hér kemur hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og kallar eftir því að ef núverandi ríkisstjórn tapi þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlegan aðildarsamning þá víki hún. Hvað gerðist á síðasta kjörtímabili? Haldnar voru tvær þjóðaratkvæðagreiðslur er lutu að Icesave-samningnum. Það voru bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur vegna þess að forsetinn vísaði málinu til þjóðarinnar, og ríkisstjórnin sat sem fastast. Svona er tvískinnungurinn í þessari umræðu. Ég tek undir það álit sem hefur komið fram í ræðum nokkurra þingmanna að umræðan þarf (Forseti hringir.) að vera málefnaleg. Það má ekki falla í skuggann af ómálefnalegum rökum og hálfsannleik. Þannig komumst við áfram.