143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi viðbrögð. Ég er sem sagt algjörlega þeirrar skoðunar að því er varðar þá sem hafa af einhverjum ástæðum flutt af landi brott eða eru ekki með launatekjur hér á landi og njóta þar af leiðandi ekki persónuafsláttar en eiga samkvæmt allri forskrift frumvarpsins rétt á leiðréttingu að ég fæ ekki séð að það sé hægt að komast hjá því að sú leiðrétting skili sér til þessa hóps með einhverjum hætti. Það verður þá að finna leiðirnar til þess. Að öðrum kosti mætti halda því fram að þetta væri bara hreinn þjófnaður af þessum hópi. Ég er ánægður með að heyra viðbrögð þingmannsins til þessa.

Hitt málið sem ég ætlaði að nefna var það sem hann kom inn á alveg í blálokin í svari sínu og varðar reglugerðarheimildina. Eftir því sem ég fæ best séð, hef ekki skoðað þetta frumvarp alveg í þaula og er þá leiðréttur ef það er misskilningur, er reglugerðarheimildin býsna víðtæk. Það hefur stundum verið gagnrýnt, m.a. í skýrslum umboðsmanns Alþingis til þingsins, að það hafi verið of mikil tilhneiging til þess hjá Alþingi að afhenda framkvæmdarvaldinu löggjafarhlutverk í gegnum reglugerðarsetningar. Við verðum að vera á tánum gagnvart þessu og passa upp á það. Það er ekki alveg nýtt, það er ekki bara núna, það gerðist á síðasta kjörtímabili, kjörtímabilinu þar áður og guð má vita hvenær.

Eins og ég les þetta virðist reglugerðarheimildin eins og hún er sett inn í frumvarpið fyrst og fremst vera í því augnamiði að tryggja að kostnaðurinn við aðgerðirnar fari ekki umfram þetta 80 milljarða kr. mark sem verið er að tala um. Þá er í raun og veru verið að láta fjárveitingavaldið í reglugerðarbúningi inn í ráðuneytið. Ef ég les þetta rétt eru menn þarna komnir út fyrir það sem eðlilegt (Forseti hringir.) getur talist.