143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Til mín er beint spurningum, m.a. um það hvaða lán verði dregin frá áður en til lækkunar höfuðstóls kemur. Ég verð í fyrsta lagi að vísa til 8. gr. frumvarpsins en í annan stað vekja einfaldlega athygli á því að fyrst og fremst er verið að horfa til lána sem hvílt hafa á viðkomandi fasteign, lána sem tekin hafa verið og hafa veitt rétt til vaxtabóta. Það kann að vera að einhver hafi á tímapunkti verið með einhvers konar neysluskuldir sem seinna hafi orðið að láni sem var verðtryggt og hafi síðan verið þinglýst á eignina, fært yfir á fasteignina, og mögulega byggt rétt til vaxtabóta og komið þannig til frádráttar. En almenna reglan er sú að aðgerðir til þess að létta skulda- og greiðslustöðu heimila vegna lána sem tekin voru til fasteignakaupa, aðgerðir til þess að lækka slík lán komi til frádráttar.

Síðan er spurt um flokkun eftir kjördæmum. Það ætti að vera hægt að fá slíka flokkun en hún er ekki til og fylgir ekki frumvarpinu.

Mig langar aðeins til að nefna framsal til ráðherra með reglugerðarvaldi. Ég vil vekja athygli á því að þingið hefur á undanförnum árum opnað fyrir útgjöld úr ríkissjóði eins og t.d. endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar í landinu þar sem heildarfjárhæðin er algjörlega óviss stærð. Í þessu máli er því öfugt farið. Við erum búin að fá heimildina í fjárlögum fyrir fjármögnun aðgerðanna og reglugerðarheimildin tekur í raun og veru mið af því að við aðlögum aðgerðina eftir því hvernig umsóknir (Forseti hringir.) líta út, hvernig heildarumfang aðgerðarinnar verður. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi finnst mér þetta miklu (Forseti hringir.) viðaminna framsal en við höfum séð á síðastliðnum árum.