143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það eru sannarlega ýmis deiluefni uppi varðandi það mál sem við ræðum nú, en ég held þó að það sé óumdeilt að frekari skuldaleiðréttingar, eins og það var kallað, frekari leiðréttingar en þær sem ráðist var í á síðasta kjörtímabili, voru eitt helsta kosningamálið fyrir kosningar síðasta vor. Við tölum um leiðréttingar en óvitlaus kona skaut því að mér um daginn að líklega væri rétt að nota orðið „afskriftir“ og það er rétt. Þetta eru afskriftir, þetta eru ekki leiðréttingar, en það er svolítið í tísku, virðulegi forseti — ég held að þetta sé einhvers staðar kallað … þegar verið er að nota fallegri orð um eitthvað (VilB: Þetta heitir skrauthvörf.) — skrauthvörf, takk fyrir. Það má alltaf treysta hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni. En það er það sem ég held, þetta eru afskriftir.

Ég held að við séum sammála um að þetta var eitt helsta kosningamálið. Okkur greinir hins vegar á um hversu umfangsmiklum afskriftum var lofað og hvernig ætti að fjármagna þær. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tvö frumvörp, annars vegar um það sem þeir kalla séreignarsparnað, sem eru líklega ein skrauthvörfin enn, því að verið er að tala um séreignarlífeyrissparnað — það er sjálfstæðishlutinn, sagði einhver — og nú ræðum við hér framsóknarhlutann, sem eru almenn niðurskrif, almenn afskrift á skuldum.

Um slíka aðgerð sagði Seðlabankinn í umsögn sinni um þingsályktunartillögu um aðgerðir til að leysa skuldavanda íslenskra heimila, en eins og við munum var hún í tíu liðum og var samþykkt hér síðasta sumar:

Í umsögninni segir, með leyfi forseta:

„Margar þeirra hugmynda sem reifaðar eru í þingsályktunartillögunni eru ekki útfærðar. Því er ekki hægt að taka endanlega efnislega afstöðu til margra atriða aðgerðaáætlunarinnar, enda munu áhrifin að miklu leyti ráðast af þeirri útfærslu sem kann að verða valin. Í þessari umsögn er athyglinni einkum beint að mögulegum vandkvæðum sem tengjast sumum þessara hugmynda sem Seðlabankinn telur mikilvægt að verði tekin til gaumgæfilegrar athugunar sem fyrst.“

Síðar segir Seðlabankinn:

„Niðurstöður rannsókna sérfræðinga Seðlabankans sýna að almenn niðurfærsla verðtryggðra húsnæðislána er dýr og óskilvirk aðgerð til að koma til móts við þann hóp heimila sem glímir við hvað mestan vanda, þ.e. þann hóp heimila sem glímir bæði við greiðslu- og skuldavanda. Hætta er á að svigrúm til að bregðast við vanda þeirra yrði skert sökum kostnaðar við almennu niðurfærsluna.“

Virðulegi forseti. Seðlabankinn telur að almenn niðurfærsla á skuldum sé ekki góð leið. Nú hefur það bæst við að við heyrum að menn frá Seðlabanka hafi mætt í efnahags- og viðskiptanefnd og séu búnir að skoða þetta nánar og nú hafa borist fregnir af því að þeir telja að þetta hafi mjög þensluaukandi áhrif. Við þurfum að vera hrædd við það, við þurfum að sýna ráðvendni og aga, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson mundi segja. Það er þannig sem við náum tökum á efnahagsmálum þjóðarinnar. Og það virðist ekki alveg gert með þessu frumvarpi.

Mig langar líka að vitna í vinnuskjal eftir Þorvarð Tjörva Ólafsson og Karenu Áslaugu Vignisdóttur, vinnuskjal nr. 59 frá 2012, frá Seðlabankanum. Þar segir, og það er um hvernig niðurfærsla af þessari tegund virkar:

„Þannig mundi 20% almenn niðurfærsla verðtryggðra húsnæðislána dreifast þannig að 57% afskriftanna mundu falla tveimur tekjuhæstu fimmtungunum í skaut“ — sem þýðir sem sagt að 40% þeirra tekjuhæstu fengju 57% afskriftanna — „og einungis fjórðungur afskriftanna færi til heimila í greiðsluvanda og tvö af hverjum þremur heimilum í greiðsluvanda væru líkleg til að glíma áfram við þann vanda þrátt fyrir afskriftirnar.“

Ekki er þetta nú gæfulegt. Ekki virðist skuldaniðurfærsla af þessu tagi hjálpa þeim sem mest þurfa á að halda.

Virðulegi forseti. Við höfum leitað eftir upplýsingum um hvernig þær tillögur sem eru hér til umræðu dreifast á heimili landsins og mismunandi tekjuhópa. Þær upplýsingar hafa ekki fengist en tilvitnunin í sérfræðingana tvo hér áðan gefur vísbendingu um að þeir tekjuhæstu hagnist mest. Það er fyrst og fremst vegna þessara atriða sem ég tel almenna skuldaniðurfærslu, eins og hér er lögð til, ekki þann kost sem velja skal, heldur eigi að reyna, ef við ætlum að halda áfram að hjálpa fólki, sem er sjálfsagt að gera, að einbeita okkur að þeim sem verst urðu úti.

Virðulegi forseti. Forustumenn ríkisstjórnarinnar kynntu tillögur sínar á einstæðum fundi í Hörpu í nóvember undir yfirskriftinni „Leiðréttingin“. Ég er nú eiginlega að komast að þeirri niðurstöðu að „Óvissuferð“ hefði átt að vera yfirskrift fundarins því að þegar málið er rifjað upp frá upphafi hefur verið um óvissuferð að ræða allt frá því í kosningabaráttunni. Og það hefur í raun verið sérstakt viðfangsefni að fylgjast með framvindunni og spenningi yfir því hvað gerist næst.

Þó að hæstv. forsætisráðherra vilji sem minnst við það kannast að hafa sagt að hægt væri að hafa 300 milljarða af þeim sem hann og flokksmenn hans kölluðu hrægamma til að lækka skuldir heimilanna þá var það samt skilningur flestra kjósenda. Hæstv. forsætisráðherra getur kallað það samfylkingarspuna, eða hvað sem hann vill, en þannig var það einfaldlega. Látum það eftir honum að um lægri fjárhæðir hafi verið að ræða, en þá er alla vega ljóst að talið um að hægt væri að sækja umtalsverðar upphæðir í þrotabú bankanna til að greiða niður skuldir heimilanna var ábyrgðarlaust hjal og reist á fölskum grunni. Samt urðu þessar kenningar, virðulegi forseti, til þess að forseti Íslands veitti honum umboð til stjórnarmyndunar.

Á Eyjunni 20. maí 2013 er sagt frá fundi sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sótti, alþjóðlegum leiðtogafundi sem London Business School og sjónvarpsstöðin CNN efndu til. Forsetinn gagnrýndi, eins og oft áður, Breta vegna framkomu þeirra í Icesave-málinu, hann hvatti aðrar þjóðir, til að mynda Íra, til að fara íslensku leiðina í hruninu, og auk þess sagði hann Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa lært meira af Íslandi en Ísland af honum.

Þá barst talið, virðulegur forseti, að myndun nýrrar ríkisstjórnar. Forsetinn sagðist hafa veitt Sigmundi Davíð umboðið á grundvelli kosningaloforða Framsóknarflokksins, og ég vitna orðrétt í þessa grein, með leyfi forseta:

„Ég valdi leiðtoga Framsóknarflokksins, en í kosningabaráttu sinni lagði hann mesta áherslu á að takast á við skuldir heimilanna og beita þá vogunarsjóði, eða hvað sem þeir kallast, þrýstingi svo þeir næðu ekki fram þeim gríðarlega hagnaði sem þeir hugðust ná fram á íslensku bankakreppunni. Það var mjög athyglisverður lýðræðislegur sigur og þess vegna veitti ég honum umboð til að leiða næstu ríkisstjórn.“

Virðulegi forseti. Forsætisráðherra blekkti sem sagt ekki bara íslenska kjósendur og almenning, með því sem sumir kölluðu vúdú-hagfræði, heldur líka herra forseta Íslands.

Þá er það spurningin um hvenær fólk ætti að fá leiðréttingu. Hún átti að koma strax, var sagt. En hún er ekki komin enn og af frumvarpinu sem við ræðum nú verður ekki annað skilið en að fyrstu greiðslur berist í fyrsta lagi undir lok ársins eða meira en einu og hálfu ári síðar en vera átti. Og það var ekki bara hæstv. núverandi forsætisráðherra sem lofaði því að leiðréttingin kæmi strax heldur einnig ýmsir fleiri. Þannig skrifaði frambjóðandinn Einar K. Guðfinnsson, nú hæstv. forseti Alþingis, í feyki.is þann 4. apríl 2013, þegar hann vék að nauðsyn þess að leysa skuldavanda heimilanna, með leyfi forseta:

„Það er þess vegna svo gríðarlega nauðsynlegt að til staðar verði úrræði sem virka strax, undir eins frá fyrsta degi eftir að lög hafa verið samþykkt á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram slíkar tillögur sem munu lækka skuldir um 20% miðað við 20 millj. kr. lán og hóflegar fjölskyldutekjur. Þetta færi talsvert langt með að vinna niður forsendubrestinn sem varð með hruni fjármálakerfisins og hækkun verðbótanna.“

Nú er hins vegar ljóst að það mun tefjast eitthvað, jafnvel eftir að frumvarp þetta verður samþykkt, og jafnframt kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra hér í gær, við upphaf umræðunnar, að þeir gætu náð 20% lækkun á lánum sem væru með 10 millj. kr. lán, ekki 20 milljónir eins og sagði í þessari tilvitnun. Það er að þeir ná þessum 20% ef þeir nota séreignarlífeyrissparnaðinn að fullu, þ.e. 1,5 milljónir, en þá þurfa þessar fjölskyldur, og það má ekki gleyma því, að hafa 700 þús. kr. launatekjur á mánuði. Og því miður er það ekki meiri hluti fólks sem hefur það, þó að það væri óskandi.

Eftir kosningar var því fyrst lofað að fólk mundi strax á sumarþingi finna fyrir skuldaleiðréttingunni eða öðrum aðgerðum á sumarþingi. Forsætisráðherra sagði við mbl.is. þann 22. maí 2013:

„Heimilin munu væntanlega strax finna mun vegna hinna ýmsu breytinga sem verða innleiddar og einhverjar þeirra koma til framkvæmda strax á sumarþinginu. En eðli málsins samkvæmt, eins og var ítarlega fjallað um í kosningabaráttunni, þá tekur skuldaleiðréttingin sjálf, hin almenna leiðrétting, einhvern tíma.“

Það eru nú ekki allir sammála því, virðulegi forseti, að ítarlega hafi verið um það fjallað í kosningabaráttunni að fólki fyndi ekki strax fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar. En látum það liggja á milli hluta. En urðum við sem erum heimilin í landinu vör við breytingar strax á sumarþingi? Svarið er nei. Ríkisstjórnin lét hendur standa fram úr ermum á sumarþinginu og lækkaði veiðigjöld um marga milljarða og virðisaukaskatt af ferðaþjónustu eða gistingu um færri milljarða. Ekkert kom hins vegar í hlut heimilanna nema þingsályktun í tíu liðum. Leggja átti fram frumvarp um að afnema gjald vegna gjaldþrotameðferðar í október, það kom fram á síðustu dögunum fyrir jól og var samþykkt í janúar.

Svo var dagsetningin um skuldaniðurfellingarnar, þær átti að kynna í nóvember og þann 28. nóvember var hinn mikli blaðamannafundur. Nú í byrjun apríl ræðum við þær tillögur og enn vantar frumvarpið um afnám verðtryggingar, sem lofað var, og enn vantar lyklafrumvarpið, svo að fátt eitt sé nefnt.

Þrátt fyrir að sagt hafi verið að auðvelt yrði fyrir fólk að reikna út hversu mikið kæmi í hlut hvers og eins þá er ómögulegt að gera það og við höfum verið svikin um reiknivélina. Nú er komið í ljós að ekki er hægt að segja hver fær hvað fyrr en allir hafa sótt um, sem verður í september. Þá tekur, að því er mér skilst, þrjá mánuði að reikna það út. Og við vitum ekki hver viðmiðunarverðbólgan verður. Sum okkar skilja ekki af hverju hin mánaðarlega verðbólga, sem átti að liggja til grundvallar, frá því í desember 2007 til ágúst 2010, er nú allt í einu orðin 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Mér er sagt að það sé einfaldara að reikna það út en ég er ekki sannfærð um að það sé bara einfaldara. Er eitthvað fleira þar á ferðinni? Það er nauðsynlegt að nefndin skoði það.

Í óvissuferðum er það gjarnan þannig að fararstjórinn veit að minnsta kosti hvert verið er að fara og hvað gerist næst þó að farþegarnir séu í spenningi og óvissu.

Virðulegi forseti. Ég óttast að ríkisstjórnin, sem er fararstjórinn í þessari ferð, hafi ekki hugmynd um hvert við erum að fara. Það óttast ég.