143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:10]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því miður er ekki hægt að svara því skýrt fyrir hvern og einn hver hans leiðrétting verður fyrr en fyrir liggur hvað margir sækja um og öll gögn eru komin og hvað menn hafa notið mikilla leiðréttinga áður þannig að jafnvel þó að prósentan liggi fyrir er ekki vitað hvað hver og einn fær og enginn getur reiknað út hvað hann fær fyrr en í ljós kemur hvaða leiðréttingar og lækkanir hver og einn hefur fengið áður, hverjir hafa farið 110%-leiðina eða fengið sérstakar vaxtabætur og slíkt. Það mundi því miður ekki hjálpa mikið. En allt kapp er lagt á að hægt verði að vinna þetta eins hratt og vel og mögulegt er.

Einnig er mikilvægt að leiðrétta þann misskilning sem ég heyrði í ræðu hv. þingmanns þar sem hún talaði um greiðslu. Það verður ekki greitt út heldur verður lækkun á höfuðstól. Hún kemur öll samtímis þegar láninu er skipt upp, þ.e. þegar er búið að reikna út hver lækkunin á að vera er láninu skipt upp í tvo hluta, svokallaðan frumhluta og síðan leiðréttingarhluta. Það er svo verkefni ríkissjóðs að greiða allan leiðréttingarhlutann á meðan það er verkefni heimilisins að greiða niður frumhlutann. Öll upphæðin er áfram á ábyrgð og á veðrými heimilisins, þannig að heimilin fari ekki í það skuldsetja sig hratt og fara út í skuldsetta neyslu og slíkt. Ég held að of mikið hafi verið gert úr því að þetta muni leiða til þenslu eða verðbólgu og tel litla ástæðu til þess að hafa áhyggjur af því.

Getur hv. þingmaður ekki verið sammála því að svigrúm upp á 20 milljarða sé fyrir hendi til að gera eitthvað, annaðhvort til að lækka skuldir ríkissjóðs eða til að lækka skuldir heimilanna? Er hv. þingmaður ekki sammála mér varðandi þau heimili sem eru með þeim skuldugustu í Evrópu og skulda 108% af vergri landsframleiðslu að það sé vel þess virði að lækka skuldir þeirra með almennri aðgerð?