143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:19]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Varðandi reglugerðarvald ráðherrans kemur það einmitt af þessu með forsendurnar sem á eftir að skilgreina í frumvarpinu. Ég gleðst yfir því að hv. þingmaður deili áhyggjum með mér af skorti á skilgreiningu í frumvarpinu og skorti á útlistun á nákvæmlega valdi ráðherra þegar kemur að þessu. En hvað teljum við að ætti að koma þarna í staðinn, hvernig ætti að útfæra vald ráðherra? Eða þarf þetta frumvarp hreinlega að koma aftur til þingsins sem þá lagabreytingar sem varða útfærsluna á framkvæmdinni? Ég spyr að því hvort ekki sé nauðsynlegt að frumvarpið komi inn sem lagabreytingar til þingsins þegar útfærð framkvæmd liggur fyrir.

Hvað varðar útfærslu framkvæmda sem snýr að jöfnunarreikningi og greiðslu inn á jöfnunarreikning er það eitthvað sem ég held að þær nefndir sem taka frumvarpið fyrir þurfi að íhuga mjög vandlega. Ég velti fyrir mér lögmæti þess að greiðsla gangi fyrst inn á jöfnunarreikning vegna þess að þar er ekki um vanskil að ræða heldur samninga um greiðslujöfnun sem lengdu vissulega í lánunum. Þetta á klárlega eftir að koma mörgum á óvart, eins og hv. þingmaður benti á. Ég hef áhyggjur af því og það varðar aftur þessa óvissu.

Að lokum rétt til að nefna forsenduviðmiðin þá eru verðtryggð fasteignalán með þá forsendu innbyggða að það er tenging við verðbólguna á hverjum tíma en það þýðir ekki að lán hafi endilega hækkað í neinu verðbólguskoti. Eins og Gylfi Magnússon dósent hefur bent á fjölgar krónum í takt við það að hver króna verður verðminni í verðbólgu en lánið stendur þannig í stað að raunvirði. Við þurfum að ræða svolítið nánar þessar forsendur, við þurfum að reyna að skilgreina og skilja forsendurnar betur sem eru gefnar, eða réttara sagt sem eru ekki gefnar, og hverjar þær mögulega gætu verið. Kannski ég biðji hv. þingmann bara um að leyfa skáldskapargyðjunni að koma yfir sig varðandi það.