143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ræðu hans sem var málefnaleg og ég hlustaði grannt eftir vegna þess að ég tel að það sem hv. þingmaður hefur fram að færa í þessum efnum skipti máli. Það eru engu að síður nokkur atriði sem er mjög mikilvægt að fá betur fram í umræðunni, m.a. frá þeim sem standa að flutningi málsins, þ.e. þingmönnum stjórnarflokka.

Í fyrsta lagi erum við auðvitað að tala um ráðstöfun á opinberum fjármunum vegna þess að þegar búið er að ákveða að leggja á sérstakan bankaskatt eru það orðnar tekjur hins opinbera, tekjur ríkisins og þetta snýst um ráðstöfun á þeim.

Þá er fyrsta spurningin: Er þetta skynsamlegasta ráðstöfunin á þeim tekjum? Telur hv. þingmaður að það sé skynsamlegasta ráðstöfunin á þeim tekjum sem koma inn með bankaskattinum að fara í þessa leiðréttingum með þeirri aðferðafræði sem hér er lögð til fremur en ýmsa aðra þætti sem væri hægt að fara í í hinu opinbera, eins og í menntun, skólakerfi, heilbrigðiskerfi, félagskerfi eða bara í að hækka laun? Það er eitt.

Í öðru lagi nefndi þingmaðurinn hér á bls. 15 að 60% af umfangi leiðréttinga færu til heimila með árstekjur undir 8 millj., ergo 40% fara til heimila með 8 millj. eða meira, ekki satt? Er það félagslegur svipur á aðgerð af þessum toga sem hv. þingmaður er sáttur við?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hv. þingmann um þá sem samkvæmt forskrift frumvarpsins eiga rétt á leiðréttingu en geta ekki nýtt sér hana, t.d. vegna þess að þeir hafa losað sig við skuldirnar, selt eignir, flutt úr landi, eru ekki með tekjur hér, njóta ekki persónuafsláttar og geta þá ekki raungert þá leiðréttingu sem þeir eiga raunverulega að fá. Hvernig sér þingmaðurinn (Forseti hringir.) fyrir sér að tekið verði á því ójafnræði sem sá hópur verður þar af leiðandi fyrir?