143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:41]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir spurningar og andsvar. Fyrsta spurningin sneri að því hvort það væri skynsamleg ráðstöfun að ráðstafa þeim fjármunum sem meðal annars koma með auknum bankaskatti til heimilanna. Já, ég tel það afar skynsamlegt. Ég byggi það á þeim aðstæðum sem við komum úr. Ég veit að á síðasta kjörtímabili var ríkisstjórnin að berjast allt kjörtímabilið við að leiðrétta, styrkja og efla hag heimilanna. Það er alltaf spurning hversu langt á að ganga og hvenær er nóg að gert.

Þetta er býsna snúið en ég byggi skoðun mína á því að við ákveðnar aðstæður sé réttlætanlegt, og ég veit að hv. þingmaður þekkir það úr hinum ýmsu hagfræðikenningum, að horfa á afkomu ríkissjóðs til lengri tíma og hægt að réttlæta að hann skili minni afgangi en ella, eða hreinlega halla við kreppuaðstæður og samdráttaraðstæður, og þá sé hugað að atvinnulífinu og heimilunum. Hér var ýmislegt gert fyrir atvinnulífið og bankastarfsemi þar með á síðasta kjörtímabili og við þurfum að klára stöðu heimilanna.

Önnur spurningin sneri að því að 60% af leiðréttingunni færi til heimila með árstekjur upp á 8 millj., sem eru rúmlega 300 þús. kr. mánaðartekjur. Eftir því sem tekjur eru hærri þeim mun meira skulda (Forseti hringir.) heimilin en þakið er hins vegar 4 millj. kr.