143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. 80 milljarðar eru miklir peningar, þótt ekki sé það jafn mikið og þeir 300 milljarðar sem var talað um og lagt upp með í kosningabaráttunni, og til samanburðar er gert ráð fyrir að við greiðum í vexti af skuldum ríkissjóðs um 75 milljarða. Þegar við greiðum út úr ríkissjóði sem er svona illa staddur og höfum þurft að fara í gegnum sársaukafulla niðurskurði o.s.frv. er ekki nóg að Framsókn og sjálfstæðismenn séu ánægðir með útfærsluna heldur þarf þjóðin að vera nokkuð lukkuleg með hana líka.

Birt hefur verið könnun á visi.is þar sem kemur fram að aðeins 27,5% eru ánægð með skuldaniðurfærslurnar. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji það vera heildarupphæðin sem þarna hefur áhrif eða hvort það geti verið það að hærri upphæðir renni til tekjuhærri heimila eða það að byrja eigi að greiða niður af greiðslujöfnunarreikningnum, þannig að þetta kemur ekki eins fram á mánaðarlegri grreiðslubyrði og heimilin höfðu kannski gert ráð fyrir í upphafi og lagt var upp með? Ég vil biðja hv. þingmann að velta því fyrir sér með okkur hér hvað það er sem hann telur að valdi óánægju landsmanna með skuldafrumvörpin.