143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:48]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur andsvarið og spurningarnar og vangavelturnar sem hér komu fram. Það eru vissulega miklar fjárhæðir sem við nýtum í þetta verkefni.

Það kom fram í svari mínu áðan að ég hef þá einlægu trú að heimilin eigi við þær aðstæður sem við erum að vinna okkur út úr að hafa forgang. Þá er ég að horfa á hagkerfið eins og það virkar í heild sinni þar sem við erum með frjálst markaðshagkerfi þar sem við viljum að viðskiptin gangi vel fyrir sig og efnahagshringrásin virki og ríkið styðji síðan og haldi utan um þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Við slíkar aðstæður, þegar við erum að vinna okkur út úr kreppu og efnahagshruni, er hagur heimilanna veikari fyrir og til að styrkja efnahagshringrásina er mjög mikilvægt að koma þar að og það er hlutverk okkar stjórnvalda að styðja við. Ég set heimilin þar í forgang.

Varðandi þessa könnun get ég auðvitað ekki svarað því beinlínis. Ég held að heimilin verði ánægð þegar þau sjá áhrifin af leiðréttingunni og þetta mun fyrir fjölda heimila skipta gríðarlega miklu máli, að losa um ráðstöfunargetuna, og auka hag þeirra. Mögulega tengist þetta eitthvað væntingaspennu þannig að einhverjir hafi búist við meira en ég skal ekki fullyrða neitt um það.