143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann gladdist yfir því að barnafjölskyldur fengju góða leiðréttingu og var ánægður með hlut þeirra. Samt er það þannig að 46% af fjárhæðinni renna til barnlausra heimila. Það er einnig þannig að 40% heimilanna sem eru með 8 millj. í árstekjur eða meira fá 32 milljarða af heildarsummunni, ef þetta eru 40% af þeim tekjuháu. Ég velti því fyrir mér hvort það hefði verið skynsamlegra, og hvað hv. þingmaður segir um það, að sleppa því að rétta þeim skattfé sem ekki þurfa á því að halda og taka frekar inn í myndina leigjendur. 20% heimila búa í leiguhúsnæði og oftast er það okkar fátækasta fólk, en það er ekki nefnt í þessu frumvarpi. Væri ekki betra að forgangsraða á annan hátt?