143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:55]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar sem því fylgdu. Ég byrja á sviðsmyndunum. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að þær munu eitthvað breytast eðli málsins samkvæmt. Eins og kemur fram í frumvarpinu og hæstv. fjármálaráðherra hefur farið yfir er beinlínis gert ráð fyrir því í 17. gr. að með reglugerð verði þetta stillt af í fjárlögum. Það liggur ekki fyrir hversu margir munu sækja um. Það eru óvissuþættir í þessu og það er viðurkennt. Ég trúi því þó að þetta gefi ágætisheildarmynd af þeim samfélagshópum sem þarna birtast, bæði hvað varðar tekjur og fjölskyldumunstur.

Ég er sannarlega fylgjandi öllum hvataúrræðum þegar kemur að stuðningi stjórnvalda við heimilin í landinu. Von mín stendur til þess að þegar við sjáum endanlega útfærslu á framtíðarskipan í húsnæðismálum verði um fjölbreyttari úrræði að ræða en við höfum séð áður og tekið tillit til fjölbreyttra samfélagslegra hópa og landsbyggðarinnar.