143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:57]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og ég gleðst yfir því að við deilum sömu sýn hvað varðar fjölbreyttari búsetuúrræði. Það er þó klárt mál að ég held að þau þurfi að ræðast í samhengi við skuldsetningu heimila hér á Íslandi, fólki stendur í raun ekki til boða annað en skuldsetja sig ef það vill yfir höfuð búa einhvers staðar sómasamlega. Þessu þarf að breyta og það gleður mig að við hv. þingmaður séum sammála um það.

Við erum líka sammála um að sviðsmyndirnar munu breytast. Ég hef grun um að þær muni skekkjast í átt til hinna tekjuhærri og eignameiri í ljósi þess að leiðréttingar, aðlögun, greiðslur og annað hafa áður farið til þeirra sem eru tekjuminni. Ég hef grun um það, ég óttast það og það verður kannski þannig.