143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:59]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Í aðdraganda kosninga 2013 lofaði Framsóknarflokkurinn 300 milljarða skuldaniðurfellingu af verðtryggðum húsnæðislánum, eða þannig skildu flestir það, þ.e. allt að 20% niðurfellingu af lánum hjá fólki. Nú erum við komin með frumvarp sem gerir ráð fyrir 72 milljörðum í þá skuldaniðurfellingu og svo falla um 8 milljarðar í vaxtagreiðslur, samtals munu 80 milljarðar af skattfé fara í niðurfærslu skulda af verðtryggðum húsnæðislánum.

Ég er ekki einn af þeim þingmönnum sem kalla eftir meiri efndum frá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum í þeim efnum. Ég er sannast sagna guðs lifandi fegin yfir því að við skulum ekki vera að fást við þær brjálæðislegu upphæðir sem komu fram í kosningabaráttunni. Ég er algerlega á móti hugmyndum ríkisstjórnarflokkanna um þessa leið í skuldaniðurfellingu, bara svo það sé sagt. Skuldum er létt af ákveðnum hópi en kostnaði er kastað sisvona á skattgreiðendur framtíðarinnar.

Ég spyr: Hver fann það út að þeir sem eru með verðtryggð húsnæðislán séu í fyrsta lagi einslitur hópur sem ráð var að veita almenna lausn og í öðru lagi þeir sem blæðir mest vegna hrunsins? Hvað með skattgreiðendur dagsins í dag og skattgreiðendur framtíðarinnar sem taka á sig tap bankanna?

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2012 er tap ríkissjóðs og Seðlabankans vegna falls bankanna áætlað 267 miljarðar kr. Af hverju er þeim 80 milljörðum sem felast í bankaskattinum ekki varið í að lækka vaxtakostnað ríkisins af lánum vegna hrunsins? Það væri almenn og jöfn réttlát aðgerð. Hún kæmi sér sannarlega vel fyrir alla. Ef eitthvað er forsendubrestur í mínum huga er það sá mínus sem ríkisstjórnarflokkarnir gefa ungu eignalausu fólki og börnunum okkar í forgjöf. Ríkissjóður skuldar núna um 2 þús. milljarða og ef þessir 80 milljarðar færu í að borga upp þau lán þá væri það lækkun á skuldabyrði ríkisins um 4%. Mér finnst það ágæt byrjun og skil ekki hvernig við teljum okkur hafa efni á öðru en að byrja að greiða það upp hið snarasta.

Við í Bjartri framtíð höfum sagt: Ef það á að fella niður skuldir fólks þarf að gera það vegna skilgreinds vanda. Það þarf þá að vera algerlega á hreinu að við séum að fara vel með peninga og þeir nýtist þeim sem virkilega þurfa á þeim að halda. Þetta er því miður ekki þannig aðgerð. Þetta kallast almenn aðgerð. Hún er það kannski í einhverjum skilningi en það er alveg ljóst að hún mun nýtast sumum mun betur en öðrum og þá helst þeim sem hafa getað vegna tekna sinna eða eigna og hafa komið sér í þá stöðu að taka sem mest lán hjá fjármálastofnunum. Hinir sem hafa haft lægri tekjur og hafa þannig fengið lægra greiðslumat munu fá lægri upphæðir. Það er ekki spurt um fjármagnsþörfina hérna eða þörf mismunandi eigna og tekjuhópa til niðurfellingar. Sú leið sem er valin er ekki byggð á því að veita aðstoð þar sem hennar er mest þörf. Það liggur engin þannig forsenda hér undir. Þetta er það sem við í Bjartri framtíð getum ekki tekið þátt í.

Dreifingin á niðurfellingunni sést vel á mynd 1 á bls. 15 í frumvarpinu. Myndin hefur verið töluvert rædd í þessari umræðu og mér hefur fundist sú umræða nokkuð villandi. Í skýringartexta við myndina segir, með leyfi forseta: „Hlutfall fjárhæðar niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri.“ Þessi setning er svolítið dularfull. Vafalaust taka því margir þannig, og ég hef heyrt stjórnarliða gera það í ræðu, sérstaklega í gær, að tekjulægri heimili fái meira hvert og eitt en hin tekjuhærri. Það er alls ekki þannig. Þetta er hlutfall miðað við tekjur. Það er eitthvað hærra þar sem tekjurnar eru minni, sem er eðlilegt því að tekjurnar eru svo lágar, en hlutfallið af lágu tekjunum per se er hærra en upphæðirnar eru samt sem áður minni inn á hvert tekjulágt heimili. (Gripið fram í.) Þau skulda minna já, það er rétt. Það er það sem ég er að koma að. Tekjulægri heimili fá hvert um sig minna en þau tekjuhærri. Þetta er af því að tekjulægri heimili skulda minna, vegna þess að þau gátu ekki fengið greiðslumat fyrir hærri fjárhæðir þegar lánin voru tekin, væntanlega. En þessi heimili eru líka með minna á milli handanna til að borga af lánum. Upphæðin frá ríkissjóði sem tekjulægri heimili fá er minni en sú sem þau tekjuhærri og skuldugri fá í sinn hlut. Þetta þarf að vera alveg á hreinu.

Hv. þm. Kristján L. Möller spurði hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson í ræðustól áðan um skiptinguna milli landshluta, landsbyggð versus höfuðborg. Hæstv. fjármálaráðherra gat ekki svarað spurningum hv. þingmanns og sagði að ekki hefði verið gerð greining á því. En ég skal gefa hv þingmanni þá greiningu hér og nú. Það er hægt að lesa hana út úr mynd 1 á bls. 15.

Að öllum líkindum fær landsbyggðin minni leiðréttingu því að þar er fasteignamat yfirleitt lægra. Fólk sem hefur fengið lægri lánsupphæð fær minna en þeir sem hafa tekið hærri lán. Það má lesa úr þeim göngum sem við höfum nú þegar. Þetta kemur fram í næstu setningu málsgreinarinnar á bls. 15 svo ég vitni í hana, með leyfi forseta: „Meðalfjárhæð á hvert heimili hækkar eftir því sem tekjur eru hærri þar sem tekjuhærri heimili eru að jafnaði skuldugri en þau tekjulægri.“ Þessi munur milli þeirra sem minnst munu fá og hinna sem mest munu fá að meðaltali reiknast mér að sé á milli 33–37%, þ.e. þeir sem falla í neðsta þrep með tekjur frá 0–400 þús. fá að meðaltali um 300 þús. á ári miðað við forsendurnar eins og þær eru gefnar upp í þessari töflu, ég vil taka það fram. 300 þús. á ári í skuldaniðurfellingu samkvæmt myndinni. Þeir sem eru með 12 millj. og meira, og það er ein athugasemdin sem ég geri við framsetninguna, við vitum ekki hve hátt tekjurnar eiga að ná, fá að meðaltali um 450–480 þús. kr. á mánuði, eftir því hvernig lesið er í töfluna sem er svolítið ógreinileg. Sumir munu fá meira á ári. Þetta er um 35% hærri upphæð en þeir tekjuminnstu fá og sá munur er algerlega óútskýrður. Þeir sem skulda meira en eru jafnframt með mestu tekjurnar fá mest.

Af hverju er þessu útdeilt á þennan hátt? Er þörfin mest þarna? Er það góð og ábyrg hagstjórn að færa þeim hópi fólks skuldaniðurfellingu sem skuldar mest í verðtryggðum húsnæðislánum en eiga líka mest? Hvernig er hægt að finna það út? Hvernig getur talist skynsamlegt hjá ríkisstjórnarflokkunum að færa fólki þessi skilaboð: Skuldaðu endilega sem mest því að ef allt um þrýtur bjargar ríkið þér helst og best ef þú ert með lán í botni. Ég næ því ekki hvernig það getur rímað við stefnu Sjálfstæðisflokksins. Ég geri mér síður grein fyrir hugmyndafræði Framsóknarflokksins í þessum málum, ég verð að viðurkenna það.

Herra forseti. Við erum auðvitað bara í 1. umr. og ég vænti þess og vonast til að nefndarmenn hv. efnahags- og viðskiptanefndar spyrji áleitinna spurninga og komi með breytt frumvarp, ég verð að segja eins og er. Geta þingmenn ábyrgst að við séum ekki að henda peningum út um gluggann? Og hver eru rökin fyrir þessari tilfærslu, meira til sumra en annarra? Mig langar að fá þau á borðið. Og hver eru rökin fyrir því að nota ekki þennan bankaskatt hreinlega til að borga niður skuldir ríkissjóðs? Það væri jafnasta aðgerðin.

Herra forseti. Mér finnst, með fullri virðingu, stjórnarflokkarnir haga sér eins og foreldrar sem eru að drepast úr meðvirkni með elsta og fyrirferðarmesta barninu sínu. Þeir eru að reyna að friðþægja einhvern pirring með því að slengja góðum vasapening á boðið en gleyma að sinna yngstu börnunum í leiðinni. Ég er hrædd um að þessi summa verði fljót að gufa upp og á meðan er ekki tekið á rót vandans, það þarf aga og ábyrgð. Svo ég noti áfram samlíkinguna um stjórnarflokkana sem foreldra þá vita þeir sem hafa alið upp ungling að stundum þarf að vera staðfastur. Það er miklu betra veganesti inn í framtíðina en að vera sífellt að reyna að vinna foreldravinsældakosningu. Hún dugir skammt og hún skiptir miklu minna máli en að við tökum á þessum málum af ábyrgð.