143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:14]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka spurningarnar frá hv. þingmanni.

Hvað lýtur að hugmyndum mínum um hvar ætti að verja peningunum betur höfum við í Bjartri framtíð helst talað um að þeim yrði varið í að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs, borga niður þær skuldir okkar úr því að við erum að tala um jöfnun fyrir fólk og það er sannarlega eitthvað sem nýtist öllum og þá helst til framtíðar og á það legg ég mikla áherslu.

Þingmaðurinn spurði um leiguhúsnæðið, hvort mér fyndist koma til greina að nefndin ynni einhverjar tillögur til handa þeim sem eru á leigumarkaði. Mér þætti mjög gott ef það yrði gert. Ég skil raunar ekki alla þessa gríðarlegu áherslu á að fólk komi sér alltaf upp eigin húsnæði og mér finnst svolítið að þessar aðgerðir snúist um það. Ég skil ekki af hverju það er eitthvert takmark í sjálfu sér. Það væri mjög gott og vissulega þarft ef nefndin skilaði tillögum þess efnis.