143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:25]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Forseti. Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna stóð að margvíslegum aðgerðum fyrir skuldug heimili, bæði sértækum og almennum. Þeim aðgerðum eru reyndar gerð góð skil í skýrslu sérfræðinganna sem undirbjuggu það frumvarp sem við ræðum hér. Samfylkingin styður aðgerðir þessu til viðbótar og að meðal annars verði þeim mætt sem keyptu húsnæði á versta tíma, að tekið verði á verðtryggðum námslánum og vanda þeirra sem greiða verðtryggða leigu. Þetta nefni ég sem dæmi og framtíðarsýnin á að vera ódýrara húsnæði alla ævi og nýtt húsnæðiskerfi að norrænni fyrirmynd.

Mér finnst mikilvægt að það komi fram hér í upphafi ræðu minnar að það er stefna Samfylkingarinnar að mæta enn betur þeim sem eru í vanda. En á sama tíma gagnrýni ég það frumvarp sem hér er á borðinu og þær leiðir sem hér eru farnar. Sannarlega er það ekki svo að andi jafnaðarmanna sé ríkjandi í gegnum það frumvarp sem við ræðum hér.

Ein af aðgerðum sem ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna stóð fyrir var greiðslujöfnun verðtryggðra fasteignalána. Á heimasíðu bankanna var sú leið á sínum tíma útskýrð vel og ég vil fá að vitna í nokkur atriði þar um, með leyfi forseta.

Á einni síðunni stóð þetta:

„Í dag getur þú lækkað greiðslubyrði á verðtryggðu húsnæðisláni sem tekið var fyrir árið 2008 um um það bil 10%. Greiðslujöfnun verðtryggðra húsnæðislána gerir þér kleift að létta greiðslubyrðina tímabundið á meðan niðursveiflan gengur yfir íslenskt efnahagslíf.

Aðgerðin frestar afborgunum að hluta. Greiðslubyrði tekur mið af greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverðs. Greiðslubyrði helst betur í takt við greiðslugetu flestra. Hægt er að segja upp síðar á lánstíma (þarf að gera 10 dögum fyrir næsta gjalddaga).

Greiðslubyrðin tekur mið af greiðslujöfnunarvísitölu sem er líklegri til að henta greiðslugetu flestra betur heldur en að áfram sé tekið mið af neysluverðsvísitölu. Lánið er eftir sem áður bundið vísitölu neysluverðs og breytist höfuðstóll lánsins í samræmi við hana.

Greiðslujöfnunarvísitalan er samsett úr launavísitölu sem vegin er með atvinnustigi sem þýðir að greiðslubyrðin lækkar ef laun lækka og/eða atvinnuleysi eykst í þjóðfélaginu.

Meðan útreikningur samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu er lægri en útreikningur samkvæmt vísitölu neysluverðs safnast mismunurinn á sérstakan jöfnunarreikning og hækkar með því höfuðstól lánsins. Ef útreikningur samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu verður síðan hærri þá greiðist niður af jöfnunarreikningnum og lækkar með því höfuðstól lánsins. Sé enn staða á jöfnunarreikningnum við lok upphaflegs lánstíma þá kemur það til greiðslu með lengingu lánsins.“

Kostirnir sem dregnir eru fram eru: Léttari greiðslubyrði á erfiðum tímum í efnahag Íslendinga og að greiðslubyrði sé líklegri til haldast betur í hendur við greiðslugetu til framtíðar.

Ókostirnir eru taldir þeir að: Möguleiki sé á að lán lengist en þó aldrei lengur en þrjú ár. Eftir þrjú ár, ef enn er staða á reikningnum, verður upphæðin afskrifuð.

Síðan er tekið dæmi um greiðslujöfnun um verðtryggt húsnæðislán að upphæð 20 millj. kr. þann 1. janúar 2008 og lánstíminn er 40 ár og vextirnir 5,10%, og afborgun fyrir greiðslujöfnun 133 þús. kr., þá yrði afborgunin eftir greiðslujöfnun 120 þús. kr. Mismunurinn er 13 þús. kr., þannig að þarna hefði þetta heimili, sem þetta dæmi hefur átt við, haft 13 þús. kr. meiru úr að spila á mánuði.

60% skuldugra heimila fóru þessa greiðslujöfnunarleið, 60% skuldugra heimila. Rúmlega 40 þúsund heimili, þ.e. 60% þeirra, fóru þessa leið.

Í greinargerð með frumvarpinu sem hér er til umræðu er tekið fram að í árslok ársins 2012 voru ríflega 7,6 milljarðar á greiðslujöfnunarreikningum Íbúðalánasjóðs. Þar er einnig tekið fram að ekki sé unnt að sjá hvernig sú upphæð dreifist á lántakendur eða hver upphæð jöfnunarreikninga er hjá öðrum fjármálastofnunum. Hvorki Seðlabankinn né Analytica höfðu tekið tillit til þess í greiningum sínum að við höfuðstólslækkun — þeir greindu sem sagt afleiðingarnar af höfuðstólslækkununum — yrði fyrst gengið á greiðslujöfnunarreikningana og því séu áhrif lækkaðrar greiðslubyrði á aukna einkaneyslu ofmetin, að minnsta kosti hjá Seðlabankanum. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpinu sem hér er verið að ræða.

Hvað þýðir þetta á mannamáli, virðulegur forseti? Þetta þýðir að aðgerðirnar munu hafa minni áhrif á mánaðarlegar afborganir skuldugra heimila en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir. Það hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir þau heimili sem höfðu reiknað það út við kynningu sérfræðinganna að greiðslubyrðin mundi lækka um að minnsta kosti 13 þúsund eins og greiðslujöfnunaraðgerðin hafði gert ráð fyrir og enn fleiri sem töldu, miðað við það dæmi sem ég nefndi hér áðan, að hún yrði milli 15 og 20 þús. kr. lægri á mánuði og fólk hefði munað um það.

Fyrst það á að byrja á að fara inn á greiðslujöfnunarreikninginn þá hefur sú upphæð engin áhrif á greiðslubyrðina í dag og það eru örugglega vonbrigði fyrir skuldug heimili sem vonuðust til þess. Bjóst fólk við því að innifalið í kosningaloforðunum sem nú er búið að trappa niður um rúmlega 2/3 væri þessi niðurstaða? Nei, fólk í vanda bjóst við því að sjá það strax eftir kosningar að mánaðarleg greiðslubyrði verðtryggðra íbúðalána lækkaði.

Um 40% heimila sögðu sig frá greiðslujöfnunarleiðinni. Þau heimili hafa væntanlega ekki talið ástæðu til að lækka greiðslubyrði sína, alla vega ekki upp á þau býti sem í boði voru. Líklegast er þó að þarna sé um þann hluta skuldugra heimila að ræða sem best standa. Þau heimili finna hins vegar strax fyrir lægri greiðslubyrði vegna svokallaðra leiðréttinga. Þetta er því miður andi frumvarpsins.

Þingnefndir þurfa að fara vel yfir hvað þetta ákvæði um að byrja á því að greiða fjárhæðir inn á greiðslujöfnunarreikningana þýðir og hverjum það kemur í raun best. Er þetta aðgerð til að bæta hag bankanna? Það er eðlilegt að svo sé spurt, því að með því að greiða fyrst upp á þessum enda lánanna verður hann aldrei afskrifaður sem þó var möguleiki samkvæmt lögunum um greiðslujöfnun.

Virðulegur forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem mælti fyrir þessu frumvarpi í gær, hefur einnig lagt fram frumvarp um opinber fjármál. Í því frumvarpi er lögð áhersla á samhæfingu fjármálastefnu ríkis og sveitarfélaga, að þannig sé búið um hnútana að bæði ríkisfjármálin og peningamálin séu samstillt og réttur taktur í hagstjórninni. Birting ríkisfjármála sé formgerð í fjármálastefnu og fjármálaáætlun til nokkurra ára með innbyggðum fjármálareglum.

Síðan gerist það að í skuldafrumvörpum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er ekki haft samráð við sveitarfélögin um tekjutap þeirra vegna skattafsláttar í frumvarpinu, um nýtingu séreignarsparnaðar, en það tap er umtalsvert og sveitarfélögin hafa gert við það alvarlegar athugasemdir.

Í mati á efnahagslegum áhrifum skuldalækkunar í greinargerð stendur: Ljóst er að mikil óvissa er um heildaráhrif aðgerðanna og áhættuþættir eru fjölmargir.

Mér finnst andi þessara tveggja frumvarpa stangast verulega á og satt að segja, virðulegur forseti, finnst mér hreint út sagt ótrúlegt að sami hæstv. ráðherra hafi lagt þau fram á svipuðum tíma. Ég hlýt að spyrja hver sé í raun stefna hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum. Er hún eins og frumvarpið um opinber fjármál leggur upp með? Ég tel að ef búið hefði verið að samþykkja það frumvarp hefði svo illa ígrundað frumvarp eins og það sem við ræðum nú ekki verið lagt fyrir þingið. Þá væri nefnilega ekki nóg að segja að rökin fyrir aðgerðunum séu kosningaloforð Framsóknarflokksins.

Áætlanir um áhrif til lengri tíma hefðu þurft að fylgja og greiningar sem hægt væri að byggja ákvarðanir á sem stæðust viðmið fjármálareglna.

Á sama tíma og við erum að ræða þetta útstreymi úr ríkissjóði er staða ríkissjóðs afleit. Við skuldum um 1.500 milljarða og greiðum um 75 milljarða kr. í vexti á ári af þeim skuldum, sem er ekki ósvipuð upphæð og nú á að greiða út af skatttekjum eftir leiðum sem hér eru ræddar. Með svo skuldugan ríkissjóð stöndum við ekki sterk fyrir og megum hvorki við utanaðkomandi áföllum eða hagstjórnarmistökum af okkar eigin völdum. Því er ábyrgðarlaust að mínu mati að leggja fram frumvarp sem ber með sér slíka óvissu um efnahagsleg áhrif og ber með sér eins marga áhættuþætti.

Það gætu verið gild rök fyrir svo skulduga þjóð sem við erum að greiða út úr ríkissjóði svo háa upphæð eins og hér er lagt til, til dæmis til að mæta neyð í einhverri mynd. Því er vert að skoða hvaða neyð það er sem réttlætir það að rétta þeim heimilum fé úr ríkissjóði sem ekki þurfa á því að halda. Í umræddri greinargerð með frumvarpinu kemur fram að um 40% af umfangi leiðréttingarinnar svokölluðu fari til heimila með árstekjur yfir 8 millj. kr. og að meðalfjárhæð á hvert heimili hækki eftir því sem tekjur eru hærri.

Hæstv. fjármálaráðherra var spurður í sjónvarpsþætti nýverið út í það hvort ekki hefði verið betra að beina fjármununum að þeim sem eru sannarlega í greiðsluvanda. Hæstv. ráðherra svaraði eitthvað á þá leið að sértæku aðgerðirnar hefðu verið á þeim tíma þegar fólkið safnaðist saman við Austurvöll og grýtti Alþingishúsið og dómkirkjuna. Sennilega var hæstv. ráðherra að vitna í mótmæli árið 2010 tæpum tveimur árum eftir stórkostlegt efnahagshrun. Mér þætti fróðlegt að vita hvort hv. stjórnarþingmenn túlki þau mótmæli sem svo að fólkið í landinu hafi þar verið að kalla eftir stuðningi við fólk sem ekkert þarf á stuðningi að halda. Var fólk þá að kalla eftir því frekar en til dæmis að peningar færu til leigjenda í vanda, til barnafólks, í að styrkja heilbrigðis- og skólakerfi kannski eða lækka tryggingagjöld sem kæmi öllum fyrirtækjum í landinu til góða? Ég leyfi mér að efast um það en það virðist samt vera útgangspunktur hæstv. ráðherra og réttlæting á aðgerðum sem kallaðar eru almennar. Þingnefndir verða að svara því hvað réttlæti það í íslensku samfélagi og efnahagslífi að eyða milljörðum af skattfé til að rétta efnameiri fjölskyldum peninga en láta eins og aðstæður leigjenda og allra hinna heimilanna sem ekki falla undir skilgreiningar frumvarpsins komi stjórnvöldum ekki við. Hvaða neyð er verið að mæta eða réttlæti?

Allar greiningar hafa sýnt að það eru barnafjölskyldur sem eru í mestum greiðsluvanda og það er sannarlega alvarlegt mál. Þess vegna eru rök fyrir því að beina fjármunum til þeirra. Í þeim úrræðum sem fram koma í frumvarpi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra renna hvorki meira né minna en 40% af umfanginu til barnlausra heimila.

Virðulegi forseti. Allar útistandandi skuldir Íbúðalánasjóðs eru óuppgreiðanlegar og verðtryggðar og því er fyrirséð að áhrifin með aðgerðunum til skuldalækkunar verða umtalsverð á sjóðinn og þar með á ríkissjóð. Í umræðum um Íbúðalánasjóð í greinargerð með frumvarpinu kemur meðal annars fram, með leyfi forseta:

„Til lengri tíma hefur aðgerðin neikvæð áhrif á tekjustreymi sjóðsins með minni vaxtatekjum. Íbúðalánasjóður býr við vaxtamunarvanda sem mun aukast til lengri tíma litið við þessa aðgerð. [...] Erfitt er að meta áhrif aðgerðanna á uppgreiðsluáhættu sjóðsins en líklegt er að hún hækki með aðgerðinni, að minnsta kosti tímabundið.“

Öll neikvæð áhrif á Íbúðalánasjóð, virðulegi forseti, lenda augljóslega á ríkissjóði. Mér hefði fundist að það hefði mátt koma skýrar fram í greinargerðinni og að tilraun hefði verið gerð til að slá á upphæðina.

Árið 2010 lagði ríkið 33 milljarða kr. eigið fé til Íbúðalánasjóðs vegna bágrar stöðu hans. Lagt er til í lokafjárlögum ársins 2012 að 7 milljarðar verði afskrifaðir til viðbótar. Ljóst má vera að staða sjóðsins er þannig að niðurgreiðsla inn á höfuðstól lánanna kemur beint niður á fjárhag ríkissjóðs og eykur enn á þann vanda sem þar er við að glíma.

Virðulegi forseti. Ég hef miklar athugasemdir við það frumvarp sem hér er til umræðu. Það eru margar fleiri spurningar sem ég hefði viljað koma að. Það er von mín að fagnefndirnar, bæði efnahags- og viðskiptanefnd og fjárlaganefnd, taki þetta frumvarp til gaumgæfilegrar skoðunar og komi þá með breytingar á því hingað inn í þingsal sem hugnast fleirum en aðeins meiri hluta framsóknarmanna og sjálfstæðismanna.