143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort ég skil hv. þingmann rétt. Nú má vera að hann sé að tala um aðrar aðgerðir fyrri ríkisstjórnar en greiðslujöfnunarleiðina því að þær eru dregnar frá.

Flestar aðgerðir fyrri ríkisstjórnar voru sértækar og beindust að fólki sem þurfti nauðsynlega á þeim að halda. 110%-leiðin var þó almenn, sérstöku vaxtabæturnar voru almennar að því leyti að þær voru samt sem áður bundnar við ákveðið þak á eignum.

Það sem verið er að gera núna er þá að mæta þeim sem ekki fengu nægilega mikið síðast, að mér skilst. Hvaða fólk er þá eftir? Það er efnameira fólk sem getur staðið vel undir greiðslubyrði sinni. Við urðum öll fyrir forsendubresti, það var illa farið með okkur með hruninu. En núna á sem sagt að horfa á (Forseti hringir.) ríka fólkið sem skuldar í stóru húsunum sínum.