143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:44]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Jú, forsendubresturinn er og hefur til fjölda ára verið úti á landsbyggðinni eins og við þekkjum. Hann hefur ekki verið bættur þegar fólk hefur staðið frammi fyrir því að eignir þess falla í verði þegar brestir verða í atvinnulífi og byggðaröskun. Núna er þetta sárt fyrir margar fjölskyldur úti á landsbyggðinni sem tóku ekki þátt í því húsnæðisbólukapphlaupi sem varð hér á höfuðborgarsvæðinu, hafði hvorki fjármuni til þess né aðgengi að lánsfé; þess vegna stóð það ekki í miklum fjárfestingum. Það er mjög forvitnilegt að fá greiningu á þessu, en ég hef þá trú að ekki fari háar fjárhæðir í leiðréttingar húsnæðislána úti á landi af þessum sökum og að um mikla eignatilfærslu verði að ræða. Það má líka nefna að skattgreiðendur framtíðarinnar, sem bera ábyrgð á þessum niðurfærslum og greiðslum, eru líka fólk á landsbyggðinni sem kemur til með að greiða allan þann pakka sem við erum að tala um núna, afsláttinn af séreignarsparnaði, skattafsláttinn þar, og tekjumissi til framtíðar.

Það er grafalvarlegt mál að við stöndum frammi fyrir eignatilfærslu fjármuna milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis með þessum aðgerðum og eignatilfærslu frá þeim fátækari til þeirra ríku af skattfé almennings. Þetta er ein stærsta eignatilfærsla, má segja, í sögunni.