143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:50]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðuna. Hún fór mikinn. Flugeldasýning og brotlending og stóru loforðin hjá Framsókn. (LRM: Allt rétt.)

Hún minntist líka á almennar aðgerðir, að við hefðum lofað almennum aðgerðum, (Gripið fram í.)og er það ekki það sem akkúrat er verið að gera? Við erum að framkvæma hérna almennar aðgerðir, það er bara akkúrat eins og við lofuðum. Hún spyr: Hvað er verið að smyrja þessu á þessar dagsetningar? Það er akkúrat skilgreint að verðbólgan og skotið var þarna á þessu tímabili, og það er akkúrat það sem loforðin snerust um, að leiðrétta lánin um þetta tímabil, það voru akkúrat stóru orðin.

Hv. þingmaður talaði mikið um að þetta komi þeim mest til góða sem hæstar hafa tekjurnar. Ég spyr hana: Finnst henni þakið of hátt, vildi hún lækka þakið? Hvorki fugl né fiskur. Finnst henni þetta of lítið eða finnast henni þetta of mikið? Er þakið of hátt eða er það of lágt? Ég spyr. Ég átta mig ekki alveg á því, þetta er ýmist of mikið eða of lítið.