143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:11]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar fyrirspurnir.

Ég hef nú séð þykkari frumvörp svo það sé sagt, en frumvarpið er meitlað og það er skýrt. Ég taldi óþarft að vera að lesa lagagreinar upp því að málið er búið að vera í þinginu í tvo daga, ég geri ráð fyrir að þingmenn séu vel læsir, þannig að ég taldi það ekki ráð að lesa frumvarpið upp í heild sinni.

Þrjár spurningar komu fram. Kallað er eftir því hver forsendubresturinn var vegna þess að það hafi ekki komið skýrt fram í frumvarpinu. Ég fór yfir það í ræðu minni. Þetta er sá forsendubrestur sem varð hér í bankahruninu þegar verðbólguskot kom og verðtryggðu lánin hækkuðu.

20% lækkun. Það var afgreitt hjá fyrri ríkisstjórn með því að taka ekki tillögu Framsóknarflokksins til greina. Það hefur verið viðurkennt að svigrúm var til þess þá að fara í þá leið á meðan íslenska ríkið var með bankana þrjá (Forseti hringir.) í fanginu. Sá tími er því (Forseti hringir.) miður liðinn og glatað (Forseti hringir.) tækifæri. Þetta frumvarp (Forseti hringir.) er því með þessu sniði nú (Forseti hringir.) því ekki er hægt að halda (Forseti hringir.) fram úreltri tillögu.

Þriðju spurningunni, virðulegi (Forseti hringir.) forseti, verð ég að svara í seinna svari.