143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna sem var nú minnst um frumvarpið heldur meira um aðra hluti. Mér fannst hún ekki tala af sérstaklega mikilli virðingu um aðgerðir fyrri ríkisstjórnar. Eins og hv. þingmaður veit fór ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur í margvíslegar aðgerðir, sem reyndar eru gerð ágæt skil í skýrslu sérfræðinganefndar, sem undirbyggja það frumvarp sem við ræðum hér.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki sé rétt að fjárhæð á hvert heimili hækkar eftir því sem tekjur eru hærri samkvæmt þessu frumvarpi. Er það ekki rétt að 40% fjárhæðarinnar, eða um 32 milljarðar, fara til þeirra heimila sem eru með 8 millj. kr. eða hærra í árstekjur? Og er það ekki rétt að við höfuðstólslækkun verði fyrst gengið á greiðslujöfnunarreikningana?