143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn.

Eins og þingheimur veit og vonandi landsmenn allir er starfandi nefnd sem er að skoða hvernig og þá hvenær hægt verður að afnema verðtrygginguna alfarið eða í skrefum. Það á ekki að koma neitt á óvart. Það er best að ég sem formaður fjárlaganefndar tjái mig ekkert um það, enda veit ég ekki alveg á hvaða stað sú vinna er. En eins og hv. þingmaður veit stendur sú vinna yfir.

Ég átta mig ekki alveg á seinni spurningunni en hv. þm. Birgitta Jónsdóttir spurði um 20 ára lán, ég bið hana kannski að fara aftur með spurninguna. Það var eitthvað í þá átt hvort afnema ætti verðtrygginguna og veita einungis lán til 20 ára. (BirgJ: … talað um að það verði til 20 ára.) Bankalán eru bara afurð sem fjármálastofnanir bjóða upp á og bankastofnanir hljóta að hafa frjálst val um það hversu langan lánstíma þær bjóða upp á á lánum.